Kínverska karlalandsliðið í knattspyrnu tapaði 7-0 á dögunum í leik gegn Japan. Landsliðið hafði rétt svo komið sér fyrir í þriðju umferð undankeppninnar fyrir HM 2026 eftir sigur gegn Taílandi. Kína hefur þá aðeins einu sinni áður komist á HM, árið 2002.

Xi Jinping forseti Kína lýsti því yfir fyrir nokkrum árum að hann vildi sjá Kína halda heimsmeistaramótið einn daginn og jafnvel sigra það. Sá draumur virðist frekar fjarlægur nú eftir tapið gegn erkifjendum Kínverja, sem hafa lengi vel gert grín að eigin landsliði.

Samfélagsmiðlar í Kína loguðu eftir tapið og sögðu sumir að þetta hefði verið svartasti dagur í sögu kínversks fótbolta. „Þetta verður dagur sem mun ávallt stinga kínverska fótboltaaðdáendur og er sársauki sem verður ekki hægt að útrýma,“ skrifaði einn notandi.

Kínverjar eru vanir að sjá landsliðið sitt tapa en það er sérstaklega sárt þegar tapið er gegn Japönum. Íþróttarígurinn milli landanna tveggja ber mikinn pólitískan og sögulegan undirtón, þá sérstaklega í tengslum við seinni heimsstyrjöldina og deilur í Suður-Kínahafi.

Forsíður dagblaða í Shanghai sögðu einnig að botninum hefði verið náð hjá fótbolta í landinu. Þau kenndu sérstaklega króatíska þjálfara landsliðsins, Branko Ivankovic, um hvernig fór og töldu hann vanhæfan til að sinna starfi sínu.

Heimsfaraldur og spilling

Undanfarinn áratug hafa yfirvöld í Kína reynt að bæta stöðu liðsins og lýst yfir metnaði til að laða fleiri erlenda stórleikmenn til landsins til að spila í kínversku deildinni. Þessar áætlanir hafa hins vegar orðið á litlu og hafa undanfarin ár reynst liðinu sérstaklega erfið.

Fáar þjóðir tóku til að mynda jafn harkalega á þegar kom að samkomutakmörkunum í miðjum heimsfaraldri og Kína. Aðgerðir stjórnvalda höfðu umtalsverð áhrif á efnahagslífið og var öllu skellt í lás, þar með talið fótboltaleikjum.

Kínversk yfirvöld hafa eytt miklum fjármunum í að bæta úr stöðu kínverska landsliðsins.
© Twitter (X) (Twitter (X))

Kínverjar urðu til að mynda ósáttir þegar HM í Katar fór fram árið 2022 og sáu aðdáendur landsliða sinna samankomna á fullum leikvöngum á meðan Kínverjar voru fastir heima hjá sér.

Áhrifin hafa verið augljós undanfarin misseri en fyrr á þessu ári datt kínverska landsliðið úr riðlakeppni Asíubikarsins, sem haldin var í Katar, án þess að skora eitt einasta mark í þremur leikjum.

Ofan á allt þetta hefur spilling hrjáð kínverska knattspyrnu í mörg ár. Í mars á þessu ári voru til að mynda nokkrir af þekktustu einstaklingum innan kínverska knattspyrnusambandsins dæmdir í fangelsi. Meðal þeirra voru Chen Xuyuan, fyrrum formaður sambandsins og Li Tie, fyrrum leikmaður Everton og fyrrum þjálfari landsliðsins.