Við bæjarmörk Mosfellsbæjar rennur Leirvogsá til sjávar í Leiruvog. Leirvogsá er með betri laxveiðiám landsins. Í fyrra var hún sem dæmi í 10. sæti af 55 yfir þær ár sem voru með flesta laxa veidda á stöng. Árið 2015 var hún í 4. sæti á listanum og árið 2013 í því 5.
Gunnar Skagfjörð Sæmundsson, sem búsettur er á Ísafirði, fer árlega suður í þeim tilgangi að veiða í Leirvogsá. Gott betur en það því í vetur tók hann við formennsku í árnefndinni og sér því um að undirbúa veiðina fyrir sumarið og ganga frá þegar henni lýkur á haustin.
„Mér finnst Leirvogsá alveg frábær enda hef ég veitt í 35 ár ef ekki lengur,“ segir Gunnar. „Ég flutti til Ísafjarðar árið 2007 og frá þeim tíma hef ég farið árlega suður í þeim tilgangi að veiða í Leirvogsá.“
Mikið návígi við laxinn
Gunnar segir að Leirvogsá sé mjög fjölbreytt á.
„Það eru bæði hraðir strengir en líka lygnar breiður og pyttir. Áin er ekki stór, sem þýðir að maður er í miklu návígi við laxinn og sér hann vel. Hafandi sagt það þá getur áin líka falið laxinn vel í miklum þurrkum. Þá týnist fiskurinn stundum.
Leirvogsá hentar maðkaveiði afar vel en er líka frábær fluguveiðiá. Ég veiði bæði á maðk og flugu. Fyrir utan maðkinn hefur lítill rauður Frances með keilu reynst mér vel en ég nota líka ýmsar aðrar flugur — almennt veiði ég nú bara á það sem er undir. Á eyrunum, sem eru á miðsvæði árinnar, eru nokkrir frábærir fluguveiðistaðir.“
Krefjandi laxveiðiá
Að sögn Gunnars getur Leirvogsá verið ansi krefjandi fyrir veiðimenn.
„Ekki bara þegar kemur að veiðinni heldur líka því að komast að veiðistöðum því sumsstaðar er ansi bratt niður að ánni. Þó Leirvogsá sé frekar nett á þá vex ansi hratt í henni þegar rignir. Þá verða veiðimenn að fara með gát því hún getur orðið hættuleg í slíkum flóðum.
Áin er laxgeng að Tröllafossi og ég hef veitt lax undir fossinum. Þegar komið er fram í júlí er fiskur um alla á. Ég man ekki eftir því að hafa komið í Leirvogsá og ekki séð fisk. Veiðin hefur farið yfir þúsund fiska, sem er mögnuð veiði fyrir tveggja stanga á. Á þeim árum var reyndar verið að sleppa hafbeitarseiðum í ána. Það gekk vel og hífði veiðina upp – gerði góðu árin betri og slæmu árin ekki eins slæm. Ég myndi telja að náttúrulegur stofn árinnar standi undir 200 til 400 laxa veiði á sumri. Ef komið er í 400 laxa þá eru það 200 laxar á stöng, sem er fanta veiði.“
Greinina í heild má lesa í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.