Ástralski vínframleiðandinn Casella, sem framleiðir meðal annars Yellow Tail, hefur komið fyrir sólarorkustöð sem mun svara orkuþörf rúmlega 1.900 ástralskra heimila.
Stöðin býr yfir 8.740 sólarrafhlöðum sem munu framleiða 11,53 GWst af endurnýjanlegri orku á ári. Sú framleiðsla vegur upp á móti losun af 7.800 tonnum af gróðurhúsalofttegundum og jafngildir gróðursetningu 325 þúsund trjáa.
Sólarorkustöðin er staðsett í stærstu vínekru fyrirtækisins í Yenda í New South Wales, þar sem hið fræga vörumerki Yellow Tail er meðal annars framleitt.
Casella, sem framleiðir einnig Peter Lehmann Wines og Brand‘s Laira of Coonawarra, hefur einnig fjárfest í annarri sólarorkustöð en sú stöð samanstendur af 936 rafhlöðum sem verður notuð til að knýja skólphreinsistöð fyrirtækisins.
„Ég er mjög stoltur af því að afhjúpa þessa fjárfestingu okkar og það hreina rafmagn sem framleitt verður í gegnum sólarorkustöðina okkar. Ásamt því að draga úr kolefnisfótspori okkar erum við að leggja okkar af mörkum við að tryggja sjálfbæra þróun í alþjóðlega víngeiranum,“ segir John Casella.
Fjárfestingin er hluti af skuldbindingu Casella um núlllosun fyrir árið 2050. Fyrirtækið stefnir einnig að því að minnka losun um helming fyrir árið 2030.