Laugardaginn 22. febrúar kl. 15:00 verður sýningin Ólga: Frumkvæði kvenna í íslenskri myndlist á 9. áratugnum opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum. Sýningin fjallar um afgerandi hlutverk kvenna í mótun íslenskrar listasenu á umbrotatímum níunda áratugarins og dregur fram frumkvæði þeirra, samstöðu og áhrif á listheiminn.
Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Ásta Ólafsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Erla Þórarinsdóttir, Gerla – Guðrún Erla Geirsdóttir, Harpa Björnsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Rúna Þorkelsdóttir, Rúrí og Svala Sigurleifsdóttir.
Sýningarstjóri er Becky Forsythe, og er sýningin afrakstur árslangrar rannsóknarvinnu þar sem lögð hefur verið áhersla á samtöl við listamenn og uppgötvun óþekktra verka. Markmiðið er að varpa ljósi á flókið tengslanet listakvenna þess tíma, djarft frumkvæði þeirra og hvernig þær mótuðu nýjar leiðir í listsköpun.
Á þessum tíma fóru konur í íslenskri myndlist óhikað inn á ný svið tjáningar, frá gjörningum til hugmyndalistar, og endurskilgreindu listhugtakið. Þær brutu upp hefðbundnar hugmyndir um listsköpun og ruddu brautina fyrir komandi kynslóðir. Í sýningunni er sérstök áhersla lögð á samvinnu og tengslanet listakonanna, sem studdu hver aðra í listsköpun sinni.
Samhliða sýningunni kemur út bók sem dregur upp ítarlega mynd af listumhverfi níunda áratugarins. Bókin inniheldur rannsóknargreinar eftir Becky Forsythe sýningarstjóra og Heiðu Björk Árnadóttur listfræðing, ásamt viðtölum við listakonur, myndum af verkum þeirra og heimildum sem sýna áhrif og tengslanet þessa tímabils. Með útgáfunni er lögð áhersla á að varðveita og heiðra framlag þessara brautryðjenda og sýna hvernig áhrif þeirra lifa enn í listheiminum í dag.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir opnar sýninguna formlega.