Fenway Sports Group (FSG) hefur sett Liverpool í formlegt söluferli. FSG hefur útbúið sölukynningu fyrir mögulega kaupendur félagsins. Þetta kemur fram í grein hjá The Athletic.

Fjárfestingabankarnir Goldman Sachs og Morgan Stanley munu aðstoða FSG við söluferlið. Í yfirlýsingu frá FSG, sem eiga einnig bandaríska hafnaboltaliðið Boston Red Sox, segir að fjölmargir aðilar hafi lýst yfir áhuga á að kaupa Liverpool.

„Við höfum ávallt sagt að undir réttum forsendum myndum við íhuga sölu á félaginu svo lengi sem það hentar Liverpool.“

FSG keypti félagið árið 2010 af George Gillet Jr og Tom Hicks, en undir eignarhaldi FSG hefur gengi Liverpool tekið stakkaskiptum. Kaupverðið á þeim tíma var 300 milljónir punda, en Liverpool er í dag metið á 3,5 milljarða punda.

FSG, sem er í meirihlutaeigu John W. Henry, á einnig sjónvarpsstöðina NESN og 50% hlut í Roush Fenway Racing og Fenway Sports Management.