Þura Jónasardóttir, sölu- og markaðstjóri Varma, segir ullina alltaf jafn vinsæla og að fólk kunni vel að meta það að fá nýtsamlegar og hlýjar flíkur að gjöf.
Þura Jónasardóttir hóf störf sem sölumaður Varma árið 2013 en tók við sem sölu- og markaðsstjóri árið 2015. Hún segir starfið ákaflega fjölbreytt og lifandi sem eigi vel við fiðrildið í henni. „Það er enginn dagur eins og verkefnin eru mjög ólík.“ VARMA leggur mikla áherslu á vöruþróun og nýsköpun og leitast við að höfða til neytenda sem láta sig mikilvæg mál varða eins og mannréttindi og náttúruvernd. Þura segir VARMA leitast við að skapa tímalausar flíkur og fylgihluti sem henta vel við íslenskar aðstæður í sveit og borg.
Standa vörð um söguna
Varma notar aðallega ullarband frá Ístex sem framleitt er úr ull frá íslenskum bændum og íslensk skinn frá Loðskinni á Sauðárkróki í vörurnar sínar, enda þekkjast vörurnar á gæðunum. Undirstað- an í starfseminni, íslenska ullin, hefur þróast í 1100 ár í köldu og norðlægu loftslagi og býr þess vegna yfir einstökum eiginleikum. Hún er létt og heldur einstaklega vel hita, andar vel og hrindir frá sér vatni. Ullin var lengi vel ein aðalútflutningsvara Íslendinga en Varma leggur einmitt mikið upp úr því að standa vörð um söguna og íslenska framleiðslu. Þura segir ullina alltaf jafn vinsæla þó svo að sumar flíkur komi og fari eftir straumum og stefnum. „Ullin hefur, held ég, alltaf verið vinsæl, lopapeysurnar detta kannski svolítið úr og í tísku en sokkar, húfur, vettlingar og treflar úr ull eru vörur sem hreyfast alltaf hjá okkur.“
Klassík í bland við tísku
Að sögn Þuru er jólaverslunin farin vel af stað þetta árið og segir hún tímasetninguna mjög svipaða og í fyrra. Spurð hvort mikið sé um nýjungar frá Varma fyrir þessi jólin segir Þura stöðugar breytingar, bætingar og nýjungar í gangi allt árið um kring. „Við erum með nýjar húfur núna, vettlinga og trefla og svo erum við aðeins að litabreyta eldri vörunum okkar og gefa þeim þannig nýtt líf.“ Hvaðan sækið þið innblástur í hönnun ykkar? „Við leitum mikið í gömul og klassísk mynstur og reynum að aðlaga þau að tísku og trendum sem eru í gangi hverju sinni. Við höldum fast í íslenska stílinn og klassíkina ásamt því að vera vakandi fyrir því hvað er vinsælt. Við skoðum einnig hvað stóru tískuhúsin eru að gera til að sjá liti, stíla og fá hugmyndir. Svo höfum við líka farið aðrar leiðir. Við höfum til dæmis gert vettlinga eftir vettlingum sem mamma mín prjónaði handa mér. Svo erum við með sjal í sölu sem er rúmlega 30 ára gömul hönnun, en uppskriftin af því fylgdi með prjónavél sem var keypt frá Evrópu. Það sjal virðist aldrei verða þreytt, enda mjög klassískt og fallegt.“
Samstaf við þekkta hönnuði
Varma framleiðir ekki einungis sitt eigið merki því það framleiðir einnig fyrir aðra. „Já, við framleiðum vörur fyrir aðra, við vorum til dæmis að framleiða teppi í samstarfi við Epal fyrir skemmstu þar sem danski hönnuðurinn Margrethe Odgaard var fremst í flokki. Svo framleiðum við duggarapeysuna fyrir Ellingsen og gerðum lopapeysur fyrir Skálmöld sem þeir tóku með sér á tónleikaferðalagið sitt. Það þarf samt að panta ákveðinn fjölda af teppum eða flíkum svo hægt sé að framleiða. Það er ekki hægt að koma inn og biðja um eitt stykki teppi eða tvær húfur og þess háttar, það er ákveðið ferli sem þarf að fara fram áður en framleiðslan fer í gang.“ Þura segir að þar sem ullin sé klassísk og endingargóð kunni fólk því afar vel að fá hana að gjöf. „Ég get nú ekki ímyndað mér hverjum vilji vera kalt og það geta allir notað húfur, vettlinga og sokka, þannig að það er um að gera að gefa hlýju í jólapakkann. Vinsælustu gjafirnar segir hún án efa vera trefla. „ Treflarnir okkar eru mjög vinsælir enda eru þeir nánast eins og flík. Svo má ekki gleyma sokkunum okkar. Ég veit að jólasveinninn er duglegur að lauma sokkum í skóinn.“ Ef þú mættir velja þér einn hlut í jólapakkann sjálf , hver yrði fyrir valinu? „Nýi trefillinn okkar, hann er himneskur.“
Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .