Breska vikuritið Economist rifjar upp rannsókn á afdrifum Íslendinga sem lentu í Heimaeyjargosinu 1973 í samhengi við afleiðingar þess að fleiri starfa heiman frá sér vegna heimsfaraldursins sem nú geisar vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum. Vísað er til hugmynda frægra höfunda um góð áhrif breytinga eins og Nassim Nicholas Taleb og Tim Harford.

Í greininni sem fjallar um afleiðingar meiriháttar umbreytinga á starfsmenn, í því samhengi að fleiri starfsmenn þurfa nú að vinna heima, en í rannsóknum segja 7 af hverjum 10 Bandaríkjamönnum sem lent hafa í því að það hafi verið betra en þeir bjuggust við. Samanburðurinn við afleiðingar gossins í Heimaey byggir á rannsókn á afdrifum þeirra sem nýttu skaðabætur til að flytja.

Meirihluti VLF unnin að heiman

Samkvæmt rannsókn Nick Bloom hjá Stanford háskóla virðist nú sem tveir þriðju allrar vergrar landsframleiðslu Bandaríkjanna í maí síðastliðnum hafi verið unnar heiman frá. Fleiri Bandaríkjamenn og Bretar virðast halda áfram að vinna að heiman en á meginlandi Evrópu þar sem fleiri virðast hafa snúið hraðar aftur á skrifstofur sínar.

Þannig virðist sem stór hluti starfa annað hvort breytist eða komi ekki aftur þó heimsfaraldurinn líði hjá, því breyttar venjur verði áfram viðvarandi. Bloom og samstarfsmenn hans spá því að þriðjungur allra starfa sem tapast hafa við heimsfaraldurinn komi ekki aftur því markaðir muni aðlagast því að minni neysla verður í borgunum og meiri í úthverfunum og á netinu.

Jafnframt spá bandarísk fyrirtæki því að hlutfall daga sem starfsmenn vinni heiman frá sér fari úr 5% fyrir útbreiðslu kórónuveirufaraldursins til um 20%, sem virðist vera svipað og starfsmenn sjálfir óska eftir að verði. Því er það ekki talið ólíklegt að mörg fyrirtæki taki upp kerfi þar sem starfsmenn skipta upp dögum í vinnu í einrúmi heiman frá sér og samstarfsverkefnum á skrifstofunni.

Áhrifin mest á tekjulægri og ómenntaðri en geti samt aukið jöfnuð

Kreppan nú, eins og alla jafna, virðist bitna harðar á þeim fátækari og ómenntaðri, en nú virðist áhrifin á þessa hópa meiri því flest störf hafa tapast í þjónustugeiranum þar sem er hæst hlutfall yngra fólks, kvenna og blökkumanna í Bandaríkjunum. Í ágústmánuði var atvinnuleysi í Bandaríkjunum 6,6%, sem er svipað og árið 2014.

Tekjur fyrrnefndra hópa hafa nefnilega verið háðar neyslu þeirra sem hafa verið með hærri tekjur, en rannsókn hóps á vegum Harvard háskóla sínir að meðan störfum þeirra sem eru með meira en 60 þúsund dali, andvirði um 8,3 milljóna króna á ári, hafi fækkað um 2%, meðan fækkunin var um 16% í störfum sem voru með laun undir 27 þúsund dölum, það er um 3,7 milljóna króna á ári.

Hins veger er talið mögulegt að til lengri tíma muni breytingin geta aukið hagvöxt og dregið úr ójöfnuði til lengri tíma litið, því húsnæðisskortur í vinsælustu borgunum mun skipta minna máli, sem dragi úr hömlum á því að ungt fólk og fátækari komist í betri störf.

Jafnframt dragi það úr mikilli eignaaukningu húsnæðiseiganda í vinsælu borgunum, en samkvæmt einum mælikvarða væri VLF í Bandaríkjunum 3,7% meiri ef reglugerðartakmarkanir á húsnæðisuppbyggingu væri jafnlitlar í New York, San Jose og San Fransisco og þær eru í meðalstórum bandarískum borgum.

Báru saman laun og menntun brottfluttra við Vestmanneyinga

Eins og áður segir hefst þó greinin á því að fjalla um það þegar eldgosið í Heimaey árið 1974 eyðilagði 400 hús í bænum, það er þriðjung heimila eyjarinnar, og einungis hafi tekist að bjarga höfninni með því að pumpa sjó á hraunið.

Það hafi hins vegar sýnt sig í rannsókn þeirra Emi Nakamura og Jóns Steinssonar við Berkeley háskóla í Kaliforníu að mikill munur hafi orðið á efnahagslegum afdrifum þeirra sem kusu að nýta skaðabætur stjórnvalda vegna heimilismissisins til að byggja upp á ný á nýjum stað eða flytja aftur heim.

Þannig hafi fólk yngra en 25 ára þegar gosið varð bætt við sig að meðaltali 4 árum í námi og 27 þúsund dölum í viðbótartekjum en þær fjölskyldur sem héldu í heimili sín. Þannig hafi það verið ábatasamt þegar upp er staðið að viðkomandi hafi þurft að flytja að heiman.

Langþráð framleiðniaukning vegna tækniframfara náist

Það passar samt við hugmyndir höfunda eins og Tim Harford og Nassim Nicholas Taleb sem segja að staðan geti batnað eftir meiriháttar upplausn vegna óreiðu og staðan geti orðið síður brothætt. Það sé jafnframt staðfest í greiningu Michele Acuto hjá Melbourne háskóla sem sýni að borgir sem lendi í því að aðalkosturinn við staðsetningu þeirra hverfi geti samt þrifist vel með aðlögun.

Sama geti átt við kreppur, að skapandi eyðilegging í anda hugmynda hagfræðingsins Schumpeter, geti náð meiri hagkvæmni, til að mynda með hraðari upptöku tækni sem hafi áhrif á launþegamarkaði löngu eftir að atvinnuleysi hafi náð fyrri stigum.

Stærð og áhrif núverandi tilraunar sem heimsbyggðin fer í gegnum er þó sögð ná langt umfram allt sem hafi verið reynt áður. Jafnvel þannig að væntingar um aukna framleiðni vegna tækniframfara sem ekki hafi orðið jafnmiklar og búist var við nái loks fram að ganga.