Nú hefur enn eitt árið runnið sitt skeið. Þá er tilefni til að staldra við og kanna hvaða græjur vöktu athygli á árinu 2024.

Hér er um að ræða fjölbreytt tæki og tól, allt frá kjötmæli og snjallbrauðrist fyrir eldhúsið, í heyrnartæki og Ray-Ban snjallgleraugu sem skarta gervigreindinni títtnefndu.

Kæru lesendur, njótið áramótanna og gleðilegt nýtt græjuár!

Ray-Ban Meta Smart Glasses

Ray-Ban Meta snjallgleraugun er tæki sem höfðar jafnt til tækni og -tískuunnenda. Um er að ræða nýja tegund gleraugna sem sameinar klassískt útlit Ray-Ban við háþróaða tækni frá Meta.

Snjallgleraugun bjóða upp á fjölda áhugaverðra eiginleika. Þau búa m.a. yfir 12 megapixla myndavél, sem gerir notendum kleift að taka upp myndbönd og ljósmyndir án handartaks. Gleraugun eru þá með innbyggðan hátalara til að spila tónlist og hljóðnema fyrir símtöl og upptöku hljóðskilaboða.

Það sem er ef til vill sniðugast við gleraugun er hin innbyggða gervigreind gleraugnanna sem sinnir í raun hlutverki vélræns aðstoðarmanns. Þannig getur notandi gleraugnanna beðið um þýðingu á matseðli á veitingastað í framandi landi, eða beðið gleraugun um að útbúa uppskrift að kvöldmat út frá því sem til er í ísskápnum.

WalkingPad A1 Pro Treadmill

WalkingPad A1 Pro göngubrettið er fullkomið tæki fyrir þá sem vilja hreyfa sig án þess að þurfa að yfirgefa Excel-skjalið. Brettið er einkar hentugt fyrir þá sem kljást við orkuleysi í vinnunni og þurfa að koma blóðrásinni af stað.

Þá er brettið einnig mjög hentugt fyrir okkur Íslendinga yfir veturinn, til að ná þessum tíu þúsund skrefum án þess að þurfa að stíga fæti út úr húsi. Brettið tekur lítið pláss og passar á flest heimili, lítil sem stór. Það býður bæði upp á göngu og -hlauphraða og er furðulega hljóðlátt tæki, sem eru góðar fréttir fyrir þá sem búa í fjölbýli.

Revolution R180B Touchscreen Toaster

Þau sem eru komin með leið á hinni hefðbundnu brauðrist geta nú andað léttar. Bandaríska fyrirtækið Revolution Cooking hefur nefnilega þróað snjallbrauðristina Revolution R180B Touchscreen Toaster.

Brauðristin, sem skartar stórum og fallegum snertiskjá, setur morgunverðarupplifunina á allt annað plan. Hún virkar þannig að notandi brauðristarinnar velur á milli sex tegunda af brauði til að tryggja fullkomna ristun. Hvort sem þú vilt léttrista rúnstykkið þitt eða fá vel ristað heimilisbrauð, þá stillir þú einfaldlega ristunina eftir þínum smekk.

Brauðristin nýtir síðan nýstárlega tækni til að greina þykkt og gerð brauðsins og aðlagar hitastillingar samkvæmt því. Það má með sanni segja að brauðristin sé skemmtilega öðruvísi viðbót við öll heimili.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.