Eftirspurn hefur tekið rækilega við sér eftir upphaflega niðursveiflu kórónukreppunnar, og er nú í hæstu hæðum. Sér í lagi er þar um að ræða eftirspurn eftir vörum, enda ferðalög og þjónusta á borð við veitingaþjónustu enn á ný háð takmörkunum. Mikil gróska hefur því verið í þróun og sölu allskyns tækja og tóla það sem af er ári, en hér fara nokkrar af áhugaverðustu græjum ársins að mati höfundar.

1. Incus Nova
Incus Nova minnir helst á geislavirka ísótópinn sem Hómer Simpson tekur óvart með sér heim úr vinnunni í inngangsstefi þáttanna gamalkunnu, þegar það kastast upp í loft og endar innan á bakinu á búningnum hans. Tækið er lítið og grænglóandi, og er staðsett ofarlega á miðju bakinu við hrygginn, hvaðan það mælir líkamshreyfingar við sund eða hlaup af mikilli nákvæmni, og gefur þér svo ráðleggingar um hvernig bæta megi líkamsbeitinguna. Enn sem komið er styður það aðeins ofangreindar tvær íþróttir, en stuðningi fyrir hjólreiðar og þar af leiðandi þríþraut er sagt verða bætt við von bráðar.

2. Casetify UV Sanitizer
Margt hefur breyst síðan heimsfaraldurinn hófst í fyrravor, og tæknifyrirtæki hafa lagt sitt af mörkum til að auðvelda fólki að takast á við þær breytingar. Útfjólubláa sótthreinsiboxið frá Casetify sótthreinsar símann þinn – einn stærsta bakteríusegul í nútímasamfélagi – og hleður hann þráðlaust á meðan. Ferlið tekur aðeins um þrjár mínútur og lítið blátt ljós blikkar meðan á því stendur, og verður svo stöðugt þegar það klárast. Viljir þú sótthreinsa símann extra vel, og kannski hlaða hann örlítið meira í leiðinni, er einnig hægt að velja 15 mínútna ferli.

3. Sonos Roam
Góðir handhægir þráðlausir hátalarar hafa verið til í þónokkur ár, eða frá því að Bose Soundlink kom fram á sjónarsviðið og sýndi fram á að hægt er að koma frábærum hljómgæðum og öflugum hátalara í lítið tæki. Sonos Roam gefur Soundlink hvergi eftir í hljómgæðum og afli, en bætir við snjallheimilisstuðningi og tengimöguleikum við Sonos heimahljóðkerfi, sem hafa verið mjög vinsæl meðal Íslendinga, ekki síst í formi hljóðstangar (e. soundbar) og viðbótarhátalara til að mynda heimabíókerfi. Roam státar af 10 tíma rafhlöðuendingu og tekur við þráðlausri hleðslu.

4. Form Smart Swim Goggles
Ýmiss konar tækni hefur sprottið upp síðustu ár til að mæla og greina hreyfingar í flestum íþróttagreinum, frá skokki til sundfimi, og raunar má finna eitt slíkt ofar á þessum lista, sem er góðra gjalda vert. Þau virka hins vegar flest þannig að skoða þarf niðurstöðuna þegar hreyfingunni er lokið eða í pásu, en það gera þessi sundgleraugu ekki. Þau einfaldlega bæta upplýsingum og ráðleggingum við sjónsvið notandans, í svokölluðum auknum veruleika (e. augmented reality). Gleraugun má stilla á óteljandi vegu og þau innihalda gríðarlegt magn æfinga.

5. Piaggio Fast Forward Gita Mini
Þarftu að fara útí búð en nennir ekki að bera heim þunga innkaupapoka? Gita Mini sér um það fyrir þig. Með hjálp bæði aragrúa myndavéla og ratsjár eltir tækið eiganda sinn eins og tryggur hundur hvert sem hann fer. Gita Mini er, eins og nafnið gefur til kynna, minni útgáfa tækis sem kom út fyrir 6 árum síðan. Tækið getur borið allt að 9kg, vegur sjálft tæp 13kg, og drífur um 34 kílómetra á hleðslu.

6. Sharper Image Word Clock
Hér er á ferð afar einföld en nýstárleg hugmynd, sem er til þess fallin að vekja áhuga og samræður. Ferköntuð framhliðin inniheldur öll þau orð sem þarf til að segja til um, með orðum í stað talna, hvað klukkan er. Orðin eru öll í röð, en síðan eru aðeins þau sem segja hvað klukkan er hverju sinni upplýst, svo úr verður einskonar úrleyst orðaleit sem myndar setninguna.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .