Grísk villa sem staðsett er á eyjunni Tinos er komin á söluskrá hjá fasteignasölunni Sotheby‘s International Realty. Villan er staðsett við sjóinn og er með bæði vínekru og vínframleiðsluherbergi.

Draumur margra um að gefast upp á streitunni í borginni og flytja á gríska eyju með fersku lofti og bláum sjó gæti orðið að veruleika, en villan kostar tæpar 3,5 milljónir evra.

Útsýnið frá verönd villunnar.
© Daniel Dahler (Sotheby‘s International Realty)

Víntímaritið Decanos segir að villan gæti hentað fullkomlega fyrir auðugan einstakling sem vill stunda vínrækt sem áhugamál. Vínframleiðsluherbergi fylgir með þar sem eigandi getur framleitt sitt eigið vín beint úr þrúgum ekrunnar.

Steintröppur villunnar liggja einnig beint frá garðinum niður á Agios Romanos ströndina og á kvöldin er hægt að sötra vín á veröndinni með útsýni af Miðjarðarhafinu meðan sólin lækkar á lofti.

Vínframleiðsluherbergið.
© Daniel Dahler (Sotheby‘s International Realty)

Tinos-eyjan liggur innan Cyclades-eyjaklasans sem nær einnig til Mykonos í suðurhlutanum. Vínframleiðsla er vel þekkt á eyjunni en hún hefur tekið þátt í verkefnum af hálfu alþjóðlega vínráðgjafans Stéphane Derenoncourt.

Grikkland hefur undanfarið verið að skapa nýja spennu í vínheiminum og segir vínsérfræðingurinn Olly Smith að vaxandi tilfinning um orku í grísku vínlífi sé að eiga sér stað á þessari stundu.