Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá VÍS, er með veiðibakteríuna á háu stigi. Hún ólst ekki upp við veiðiskap heldur kynntist hún stangaveiðinni nokkuð óvænt fyrir rúmum áratug.
„Þá var ég að vinna hjá Stöð 2 og var fenginn til að taka þátt í að gera sjónvarpsþætti um veiði,“ segir hún. „Ég leit bara á þetta verkefni sem aukavinnu en síðan varð þetta til þess að ég féll algjörlega fyrir þessu sporti.
Ein af fyrstu ferðunum sem ég fór í var í Breiðdalsá. Ég man mjög vel eftir augnablikinu þegar ég stóð úti í ánni, horfið í kringum mig á ósnortna náttúruna og hugsaði vá, mér finnst þetta geggjað og þetta ætla ég að gera aftur. Það skemmdi heldur ekki fyrir að þarna fékk ég maríulaxinn minn. Ég hafði reyndar fengið lax áður með hjálp leiðsögumanns en þetta var sá fyrsti sem ég tók sjálf. Maríulaxinn gerði samt ekki útslagið, ég var fallin fyrir þessu sporti löngu áður. Mér finnst baráttan við laxinn skemmtileg en þegar maður missir sinn fyrsta lax þá öðlast maður enn meiri virðingu fyrir honum og glímunni.“
„Í dag á hann flottari græjur“
Guðný Helga segir að til að byrja með hafi hún þekkt mjög fáa sem voru í veiði.
„Ég fékk manninn minn með í eina ferð en hann sýndi þessu lítinn áhuga og fannst þetta ekkert rosalega skemmtilegt. Mér fannst aftur á móti strax eitthvað mjög heillandi við útiveruna, náttúruna og núvitundina. Þegar ég er komin í vöðlurnar og stend úti í á gleymist allt hefðbundið amstur daglegs lífs. Það eina sem ég hugsa um er hvernig straumurinn liggur, hvar fiskurinn getur verið og hvert ég á að kasta — það eina sem skiptir máli er náttúran. Mér fannst þetta frábær slökun.
Þegar ég kem úr veiði er ég alltaf endurnærð í sálinni. Maður verður líka svo þægilega þreyttur eftir góða útiveru, reyndar finnst mér öll útivera skemmtileg, sama hvort það er veiði, golf eða skíðamennska. Það er mikil hvíld fólgin í tilbreytingunni, maður hvílir sig ekki endilega mjög vel með því að sitja í sófanum heima. Besta hvíldin er að skipta um umhverfi og vera úti í náttúrunni.“
Eftir þáttagerðina fór Guðný Helga að veiða í eitt og eitt skipti en mjög fljótlega fór ferðunum að fjölga. Í dag hefur hún eignast fjölmarga veiðifélaga og kynnst helling af nýju fólki í gegnum stangaveiðina.
„Svo urðu þau tíðindi á síðasta ári að ég fékk manninn minn til að gefa veiðinni annan séns. Nú féll hann algjörlega fyrir þessu og í dag á hann flottari græjur en ég.“ Guðný Helga segir að það sem sé líka skemmtilegt við veiðina er hversu veiðiferðirnar geti verið misjafnar. „Stundum er ég ein á þvælingi með bakpokann og stöngina, á öðrum stundum fer ég í yndislega hjónaferð eða í algjöra stuðferð með vinkonum mínum.“
Veiðihópurinn Barmarnir
Guðný segir að einn skemmtilegasti félagsskapurinn sé hópur af konum sem fyrir nokkrum árum tóku sig saman og stofnuðu veiðihópinn Barma.
„Dögg Hjaltalín á heiðurinn að því að koma þessum hópi saman sem síðar fékk nafnið Barmar. Eins og nafnið gefur kannski til kynna er hann einungis skipaður konum. Í þessum hópi eru bæði mjög vanar veiðikonur, svokallaðir náttúrutalentar en einnig hafa komið í hópinn konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í veiðinni. Þetta er ótrúlega skemmtilegur hópur — við köllum okkur kvenveiðigengið. Þetta er þannig að maður missir ekki af Barmaveiðiferð.“
Guðný segir að Barmarnir fari saman í veiðiferð á hverju ári og oftar en ekki hafi Langá orðið fyrir valinu enda mjög skemmtileg og fjölbreytt á.
„En við höfum líka farið í aðrar ár. Eitt sumarið fórum við á svæði þrjú og fjögur í Stóru-Laxá og það var ótrúleg náttúrupplifun. Þarna er líka mjög takmarkað símasamband og við gengum í klukkutíma til að komast á ákveðna veiðistaði, sem voru algjörlega stórbrotnir.“
Sjö, níu, þrettán!
Auk þess að vera í Börmunun er Guðný Helga í öðrum kvennahópi, sem fer árlega að veiða. Hún segist hafa veitt mjög víða en síðustu ár hafi hún mest farið í Laxá í Kjós, Langá og Þverá.
„Þetta eru þær þrjár ár sem ég fer í árlega,“ segir hún. „Þetta eru ár sem ég þekki orðið mjög vel og það skiptir líka máli þó það sé alltaf gaman að koma í nýja á. Mér þykir mjög vænt um Laxá í Kjós ekki síst vegna þess að ég hef aldrei farið úr henni laxlaus — sjö, níu, þrettán! Ég vil meina að við eigum í mjög sérstöku sambandi. Ég geng vel um ána og hún gefur mér fisk í staðinn. Ég er líka að bíða eftir því að fá veiðistað í Laxá í Kjós nefndan eftir mér. Mér finnst borðleggjandi að Helgufljóti verði breytti í Guðnýjar- Helgufljót.“
Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Veiði, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .