Sjó­mannadag­ur­inn verður hald­inn á sunnu­dag­inn 4. júní og munu Brim, Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð standa að skemmtuninni við Reykjavíkurhöfn á Granda.

Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs, segir að það verði tjaldað eins og í fyrra og boðið upp á tvö svið, annað við Brim og hitt á miðjum Grandagarði. Þar munu koma fram tónlistarfólkið Gugusar, Daniil, GDRN og Jón Jónsson, en hann er einnig skemmtanastjóri Sjómannadagsins í Reykjavík.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Lalli töframaður verður á litla sviðinu þar sem þau Begga og Mikki sem margir þekkja úr Krakkakvissi og Krakkaskaupinu stýra “sjó-inu” og svo harmoníkuleikarar og BMX brós á því stóra. Þá er koddaslagurinn, sigling með varðskipinu Freyju, bryggju sprellið, klifur- og kraftakeppni og fiskisúpusmakk að sjálfsögðu á boðstólnum í ár sem endranær og margt, margt fleira”, segir Aríel.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Dagurinn hefst klukkan 10 í Fossvogskirkjugarði með minningarathöfn um sjómenn sem hafa drukknað eða týnst í sjó þegar lagður verður blómsveigur á leiði týnda sjómannsins. Klukkan 11 verður svo allsherjar lúðrablástur frá höfninni þegar skipin þeyta flauturnar og setja hátíðina þar með.

“Við mælum með að fólk kynni sér dagskrána vel á vef sjómannadagsins eða á Fésbókarsíðu Sjómannadagsins í Reykjavík. Öll fjölskyldan ætti að finna eitthvað við sitt hæfi”, segir Elísabet Sveinsdóttir, markaðskona og kynningarstjóri Sjómannadagsins í Reykjavík.