Írsk-breska kvikmyndin Kneecap, sem er nú sýnd í Bíó Paradís, er að öllum líkindum sú fyrsta sinnar tegundar sem sýnd er í kvikmyndasölum Íslands. Hún fjallar um hóp rappara í borginni Belfast sem notar írskuna sem vopn í pólitísku og aðskildu samfélagi.

Myndin hefur fengið frábæra dóma en hún er meðal annars með 97% á vefsíðunni Rotten Tomatoes og fær 7,6/10 í einkunn á IMDb. The Guardian sagði að Kneecap væri ein fyndnasta mynd ársins en hún er dásamleg blanda af húmor og einlægni.

Kneecap hefst með forsögu tveggja vina af kaþólskum uppruna í vesturhluta Belfast, þar sem margir norður-írskir kaþólikkar búa. Félagarnir Liam Ó Hannaidh og Naosie Ó Cairealláin segjast sjálfir vera hluti af svokallaðri vopnahléskynslóð en það eru börn sem ólust upp á Norður-Írlandi eftir undirritun Föstudagssáttmálans 1998 sem batt enda á átökin í landinu.

Þrátt fyrir að hafa alist upp sem írskumælandi altarisdrengir eru þeir allt annað en englar. Þeir eru duglegir við að selja fíkniefni á skemmtiklúbbum og kvöld eitt er Liam handtekinn. Á lögreglustöðinni þykist hann ekki kunna ensku og þarf því að fá írskumælandi túlk til að aðstoða hann.

Tónlistarkennarinn JJ Ó Docartaigh mætir niður á lögreglustöð og endar á því að hjálpa Liam með að fela dagbók sem hann hafði með sér. Dagbók Liam inniheldur írsk ljóð og texta sem hann hafði samið og verður JJ yfir sig hrifinn.

Hann sannfærir félagana um að stofna rapphljómsveit þar sem sungið er á írsku í von um að ná til yngri kynslóðarinnar sem hefur verið að missa málið undanfarnar kynslóðir. Þeir skíra hljómsveitina Kneecap sem er tilvitnun í þá grimmu hefð sem ríkti á tímum Vandræðanna (The Troubles) þegar fólk var ýmist barið eða skotið í hnéskeljarnar.

Við tekur sprenghlægilegt ævintýri þar sem félagarnir vinna sér inn vinsældir meðal ungra írskumælandi Norður-Íra ásamt því að ergja norður-írsku lögregluna og yfirvöld til reiði. Þeir lenda í ritskoðun, átökum og atvinnumissi en halda ótrauðir áfram upp á svið.

Kneecap sýnir hvers vegna margir í heiminum hafa talið Íra vera meðal bestu sögumanna allra tíma. Hún fjallar um ofbeldi, samfélagsleg átök og mjög erfið tímabil í sögu Norður-Írlands en býður engu að síður upp á brandara á nánast tveggja mínútna fresti.

Fyrir þá sem hafa ekki kynnt sér sögu eða aðstæður fólks á Norður-Írlandi þá er Kneecap frábær leið til að öðlast innsýn inn í þann heim ásamt því að hlægja sig máttlausan um leið.