Hólmfríður Sunna Guðmundsdóttir (f. 1988) er myndlistarmaður búsett í Reykjavík. Hún lauk BA-gráðu í heimspeki árið 2015 frá Háskóla Íslands og tveggja ára diplóma námi í listmálun við Myndlistarskóla Reykjavíkur vorið 2024. Hún lauk nýverið við uppsetningu á sinni fyrstu einkasýningu í Listval gallerí.
Hvenær byrjaðirðu að búa til myndlist og hvernig kom það til að þú fórst að teikna/mála?
Það hefur alltaf fylgt mér lítil skissubók en ég hef alltaf teiknað mikið og skrifað. Það er ekki fyrr en síðustu 6-7 ár sem ég fer að færa mig yfir í stærri málverk og þora að sýna hvað ég er að gera og pæla.
Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?
Ég er mjög hrifin af Cecily Brown og hvernig hún vinnur á mörkum þess að vera abstrakt og fíguratíf. Svo hef ég fylgst með Daisy Parris og finnst orkan í verkunum hans æðisleg. Annars af eldri kynslóðum verð ég að nefna Helen Frankenthaler og Cy Twombly.
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur hjá þér?
Ég er vandræðalega mikil A-manneskja og vinn best á morgnana. Svo að ég vil helst koma mér sem fyrst að verki þegar hugurinn er tær og líkamleg orka í hámarki. Seinnipartinn finnst mér gott að taka inn ef það er möguleiki t.d. fara í göngu, skoða myndlist, lesa og skissa.
Hvaðan ertu helst að fá innblástur þessa dagana?
Undanfarið hef ég verið að skoða myndlist frá miðöldum og aðra trúarlega list. Það er eitthvað við þennan myndheim og skrítnu heimssýn sem dregur mig inn. Litirnir finnst mér líka mjög aðlaðandi. Ég hef gaman af því að skoða forn rit og sækja innblástur þaðan, hvort sem þau séu trúarlegs eða vísindalegs eðlis. Núna er þetta allt aðgengilegt á netinu og lítið mál að blaða í gegnum mörg hundruð ára rit.
Hvað hvetur þig áfram í listinni?
Innri þörf. Maður verður bara súr ef maður fær ekki að koma því frá sér sem liggur manni á hjarta.
Hverju ertu að vinna að núna/hvað er næst?
Nú fer minni fyrstu einkasýningu að ljúka en hún stendur í Listval gallerí á Hverfisgötu. Þá tekur við að reyna mála eins mikið og ég get áður en ég flyt til Berlínar í haust þar sem ég verð í starfsnámi ásamt því að vinna að mínu eigin. Það verður æðisleg reynsla að fá að búa og skapa í Berlín, ég elska borgina og orkuna sem grasserar þar.