Mehran‘s Steak House í New York var með nærri fullt hús á einkunnakerfi Google leitarvélarinnar og var steikunum á steikarstaðnum m.a. lýst hvorki meira né minna en sem bestu steik New York borgar. Áhugasamir veitingahúsagestir áttu þó í miklum vandræðum með að panta borð á staðnum, en samkvæmt heimasíðu og símsvara hans var margra mánaða biðlisti eftir borði. Síðar átti aftur á móti eftir að koma í ljós að nær ómögulegt væri að tryggja sér borð á veitingastaðnum, enda var hann ekki til. New York Times greinir frá.

Hópur vina tók sig nefnilega til og ákvað í gríni að skrá veitingastað til húsa á heimilisfang leiguhúsnæðis sem þeir bjuggu í. Alls bjuggu 16 manns í húsnæðinu sem er í frétt New York Times kallað „hakkarahús“ (e. hacker house) enda störfuðu íbúar þess, sem allir voru um tvítugt, í tæknigeiranum og sváfu í kojum.

Eldamennskan snerist upp í grín

Meðal íbúa voru Mehran Jalali, Riley Walz og Danielle Egan. Sá fyrstnefndi átti það til að elda steikur, þá aðallega sirloin, ofan í herbergisfélaga sína sem varð til þess að sá síðastnefndi skráði „Mehran‘s Steak House“ til húsa í leiguhúsnæði þeirra á Google Maps. Svo hófu þeir að gefa meintu steikhúsi falskar einkunnir og þannig fór boltinn að rúlla.

Walz bjó til heimasíðu þar sem áhugasamir gátu skráð sig á biðlista. Þegar um 900 voru búin að skrá sig á biðlista eftir borði á steikhúsinu ákváðu félagarnir, sem þá voru fluttir úr leiguhúsnæðinu í New York, að opna staðinn – en aðeins í eina kvöldstund. Þeir bókuðu veislusal og höfðu svo samband við hluta af þeim 900 sem höfðu skráð sig á biðlista til að bjóða þeim að taka frá borð.

Fjögurra rétta seðill á 114 dali

Félagarnir settu saman fjögurra rétti seðil sem kostaði 114 dali (skattar, vín og þjórfé var ekki innifalið) og fengu vini sína til að starfa á veitingastaðnum. Fáir þeirra höfðu nokkra reynslu af eldamennsku í heimahúsi, hvað þá í atvinnueldhúsi. Maðurinn sem staðurinn var nefndur eftir, Mehran Jalali, var að sjálfsögðu yfirkokkur en hann var þó ekki viss um hvort æskilegt væri að krydda aðalréttin, Rib-eye steikur, fyrir eða eftir eldun.

Þegar kom að stóru kvöldstundinni voru viðbrögð gesta misjöfn. Sumir virtust bara nokkuð sáttir meðan aðrir veltu fyrir sér hvort þeir væru þátttakendur í samfélagslegri tilraun eða falinni myndavél.