Straumfjarðará á sér langa sögu sem góð stangveiðiá. Landeigendur við ána stofnuðu sérstakt veiðifélag árið 1938. Þegar komið var fram á þennan tíma hafði áhugi fjölmargra Íslendinga vaknað fyrir stangaveiði og áin þá þegar orðin eftirsótt til veiða.
Straumfjarðará var sem dæmi ein af þeim ám sem breski hershöfðinginn og veiðimaðurinn Robert Neil Stewart stundaði og skrifaði hann um hana í bókinni Rivers of Iceland. Einar Falur Ingólfsson þýddi þessa bók fyrir nokkrum árum og óhætt er að mæla með henni. Stewart veiddi fyrst í Straumfjarðará árið 1912 og síðan af og til fram til ársins 1947.
„Þó að Straumfjarðará sé ekki ýkja löng þá er afskaplega gaman að veiða þar og hún er með réttu talin ein besta veiðiá á Íslandi,“ skrifar Stewart. „Sumarið sem við veiddum í Straumfjarðará var votviðrasamt og því kynntumst við henni við ákjósanlegar aðstæður. Ég held að sökum þess hve áin er grunn á löngum köflum næst sjónum safnist fiskurinn saman í neðri hluta hennar á þurrum sumrum en hyljirnir í efri hlutanum séu þá án fiskjar og bíði vatnavaxta.
Eins og aðrir veiðimenn héldum við til á bænum Hofsstöðum hjá elskulegri fjölskyldu í nýtískulegu húsi. Eina vandamálið var að bærinn stendur rúmlega tvo kílómetra frá ánni þar sem styst er að henni og því var þörf fyrir hestana á hverjum degi. Stundum tafði það fyrir okkur á morgnana því það þurfti að sækja þá í hagann."

„Í Hofsstaðabænum eru afar þægileg herbergi en veggirnir eru þunnir og í herberginu við hliðina á mínu svaf lítill drengur sem byrjaði daginn á því að syngja. Ég bankaði ítrekað í vegginn til þess að fá barnið til að draga úr þessum raddæfingum en strákurinn hækkaði bara róminn. Hann söng hærra og svaraði bankinu, tók þetta sennilega sem merki um fagnaðarlæti. Ekkert þýddi að banka frekar. Við kölluðum strákinn Caruso litla. Ég býst við að móður hans hafi fundist við eiga að dást meira að sönghæfileikum hans.
Þetta var mjög gott sumar hjá okkur við Straumfjarðará. Við hirtum alls 450 laxa og sjóbirtinga, nokkra urriða og eina bleikju. Meðalþyngd laxins var rétt yfir níu pund, sjóbirtingsins tvö pund. Í tölum talið skiptist aflinn afar jafnt milli daganna og við hefðum getað veitt meira hefðum við lagt okkur eftir því.“
Útdráttur úr bókinni Íslenskar veiðiár sem Einar Falur Ingólfsson þýddi.
Umfjöllunin birtist fyrst í sérblaði Viðskiptablaðsins, Veiði.