Fjallahjólamennska hefur verið að ryðja sér hratt til rúms hér á landi síðustu ár, enda aðstæður hér um margt ákjósanlegar. Hana er hægt að stunda allt frá endrum og sinnum og yfir í stífar æfingar og keppnir, og frá því að fá búnaðinn leigðan eða kaupa á nokkur hundruð þúsund, upp í margar milljónir hjá þeim allra kröfuhörðustu.
Guðmundur Fannar Markússon, betur þekktur sem Mummi, er annar eigenda hjólasvæðisins Bike Farm sem er á bænum Mörtungu á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann segir margt hafa breyst síðustu ár og áratugi í fjallahjólamennsku.
Dekkin hafa breikkað, það er komin fjöðrun á hjólin, þau eru mörg hver komin með rafmótor sem auðveldar för upp brekkur og lengri vegalengdir, og aukabúnaður og hjólabrautir eru orðin mun þróaðari. „Ég hef verið að fjallahjóla frá því ég var pjakkur, en þetta er frekar ný íþrótt í þeirri mynd sem hún er í dag, og vinsældirnar eru alltaf að aukast.“
Hjól fyrir hvert tilefni
Nokkrar mismunandi tegundir fjallahjóla eru fáanlegar í dag, hver með sína sérhæfingu. Svokölluð slóðahjól eru, eins og nafnið gefur til kynna, best til þess fallin að hjóla um nokkuð slétta slóða og létt grýti.
Þá er hægt að fá hjól sem eru sérhönnuð til að hjóla niður brattar brekkur (svokallað fjallabrun), og eru oft með fjöðrun aðeins að framan, enda segir Mummi slíka fjallahjólamennsku meðal annars geta falið í sér stökk af 10 metra pöllum. Loks eru svokölluð „enduro“ hjól, sem eru öllu vígalegri en slóðahjólin, en gerð bæði til að hjóla upp í móti og niður.
Hið hefðbundna fjallahjól í dag sem hugsað er fyrir þorra notenda er þó fyrst og fremst hannað til að komast yfir ójöfnur, og að notandanum líði vel á því. „Þessi fjöðrun er mikið öryggisatriði. Jújú þú getur stokkið á því, en þú ert líka síður að fara fram yfir þig ef fjöðrunin tekur á móti grjóti sem þú lendir á, sem dæmi.“
Mummi segir verð á þokkalegu fjallahjóli geta verið frá um það bil 250 þúsund og allt upp í um tífalt það. „Auðvitað er hægt að fara í ódýrari hjól, en þá er þetta svolítið dót. Við fáum fólk oft til okkar sem á ekki hjól og leigir því hjá okkur. Þá er spurningin eftir ferðina oft hvernig hjól viðkomandi ætti að fá sér,“ segir hann. Það sé hins vegar erfitt að svara því án þess að vita hvernig það verði mest notað.
Nánar er fjallað um málið í Ferðalög & útivist, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Hægt er að nálgast blaðið hér .