Hafnfirðingurinn Silja Úlfarsdóttir var í áratug sprettharðasta kona landsins. Hún er margfaldaður Íslandsmeistari í spretthlaupum og grindahlaupum auk þess að hafa unnið til fjölda annarra verðlauna. En hennar sérgrein var 400 metra hlaup. Hún er farin að hlaupa lengri vegalengdir núna en hún kláraði hálft maraþon í Rock n Roll maraþoninu í Madríd sem haldið var 23. apríl.
Silja hefur þjálfað marga hlaupara í gegnum tíðina, aðallega í sprettþjálfun. En einnig þá sem vilja hlaupa lengra. „Fókusinn minn er á að hafa gaman. Ég vil hafa prógrömmin fjölbreytt, með ýmsum hlaupaæfingum, hlaupastílsæfingum, styrktaræfingum og áskorunum.“
Hún tók saman nokkur ráð sem lesendur geta nýtt sér hvort sem þeir eru að stíga sín fyrstu skref í hlaupum eða eru reyndir hlauparar.
Hlauparáð Silju Úlfars
- Farðu inn í þetta á þínum forsendum. Hlaup eiga og geta verið skemmtileg þó fæstum finnist þau skemmtileg frá upphafi.
- Settu þér markmið sem heldur þér við efnið. T.d. hlaupa 5 km án þess að labba, hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu eða hlaupa 100 km á mánuði.
- Finndu þér hlaupafélaga. Það er fátt betra en að hlæja á hlaupum.
Ekki ofhugsa þetta. Reimaðu á þig skóna, settu á þig sólgleraugun og sólarvörnina og skelltu þér út!
Fleiri ráð frá Silju Úlfars má finna í blaðinu Eftir vinnu, sem kom út nýlega. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.