Marcello Gandini fæddist í Tórínó árið 1938 og er 85 ára. Hann hóf störf hjá Bertone hönnunarhúsinu árið 1965 og þá byrjaði samstarf hans við Ferruccio Lamborghini.
Ferruccio hóf framleiðslu á Lamborghini dráttarvélum árið 1947 en stofnaði bílaframleiðsluna árið 1963. Gandini hætti hjá Bertone árið 1980 og starfaði síðan sjálfstætt.
Fyrsti bílinn sem kom á markað eftir hönnun Gandini var Lamborghini Miura. Hann var frumsýndur árið 1966.
Hann er einn af fyrstu súpersportbílunum, að margra mati einn fallegasti bíll sem smíðaður hefur verið og mikið eftirlæti bílaáhugamanna.
Gandini vann einnig fyrir yfir 20 aðra bílaframleiðendur. Hann hannaði fyrstu kynslóð BMW 5 sem kom á markað 1972 og var smíðaður til 1981. Bíllinn var byggður Garmisch hugmyndabílnum.
Sá var frumsýndur á bílasýningunni í Genf árið 1970 en hvarf sporlaust eftir sýninguna. BMW framleiddi bílinn árið 2019 til heiðurs Gandini.
Gandini hannaði einnig fyrstu kynslóðina af Volkswagen Polo sem var framleidd 1975-1981. Sá var einnig framleiddur undir merkjum Audi um tíma. Þetta var minnsti bíll VW á þessum tíma og hentugur í kjölfar mikillar hækkunar á olíuverði.
Gandini hannaði Maserati Quattroporte II og IV. Önnur kynslóðin kom á markað árið 1975 en aðeins voru framleidd 12 eintök af bílnum. Olíukreppan sem hófst 1973 setti mikið strik í reikninginn á smíði bíla sem þessa. Að auki var ítalska fyrirtækið í eigu Citroën og þar á bæ var ákveðið að hætta framleiðslunni.
Bílar, bílablað Viðskiptablaðsins, sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.