Eliza Reid, forsetafrú, hefur heillað þjóðina síðustu átta ár með hlýlegri og virðulegri framkomu. Nú er komið að tímamótum þegar hún kveður Bessastaði og ný ævintýri bíða hennar. Eliza hefur meðal annars starfað sem blaðamaður og ritstjóri ásamt því að vera einn af stofnendum Iceland Writers Retreat, árlegra ritlistarbúða á Íslandi. Hún ólst upp í sveit nálægt Ottawa í Kanada og flutti til Íslands árið 2003, fimm árum eftir að hafa unnið happdrætti í skólanum þar sem vinningurinn var stefnumót með manninum sem síðar varð eiginmaður hennar, Guðna Th. Jóhannessyni.

Eliza Reid, forsetafrú, hefur heillað þjóðina síðustu átta ár með hlýlegri og virðulegri framkomu. Nú er komið að tímamótum þegar hún kveður Bessastaði og ný ævintýri bíða hennar. Eliza hefur meðal annars starfað sem blaðamaður og ritstjóri ásamt því að vera einn af stofnendum Iceland Writers Retreat, árlegra ritlistarbúða á Íslandi. Hún ólst upp í sveit nálægt Ottawa í Kanada og flutti til Íslands árið 2003, fimm árum eftir að hafa unnið happdrætti í skólanum þar sem vinningurinn var stefnumót með manninum sem síðar varð eiginmaður hennar, Guðna Th. Jóhannessyni.

Líf hennar tók óvænta stefnu árið 2016 þegar sú hugmynd kom upp að Guðni færi í framboð til embættis forseta Íslands en það var eitthvað sem hafði ekki komið til tals fyrr en nokkrum vikum áður en ákvörðunin var tekin.

„Hann hafði mikla þekkingu á sögunni og embættinu og var búinn að fylgjast vel með þróun mála. Þetta gerðist allt mjög snögglega hins vegar og ég hef stundum rifjað það upp þegar hann minntist á það í byrjun árs 2016 að kannski yrði hann fenginn sem álitsgjafi hjá Rúv á kosninganóttinni. Þá gátum við ekki ímyndað okkur hvað beið okkar.“

Hún segir þau hafa verið samtaka í ákvörðunartökunni þegar þetta barst loks í tal.

„Það var ekki erfitt að taka þessa ákvörðun. Þetta var í raun bara spurning um hvort hann vildi þetta, gæti gert þetta vel og hvort við myndum mögulega spilla fyrir framtíð barnanna okkar. Þetta voru stærstu spurningarnar sem við spurðum okkur og við áttuðum okkur á að við höfðum engu að tapa, jafnvel þótt hann yrði ekki kjörinn.“ Þetta ferli var ákveðinn vendipunktur fyrir fjölskylduna, þar sem þau tóku stóra ákvörðun saman sem endaði með því að Guðni var kjörinn forseti rétt rúmum tveimur mánuðum seinna.

Vildi nýta rödd sína

Þegar Guðni var kjörinn forseti kom upp ný staða fyrir Elizu. „Við vorum með lítil börn og þurftum að taka einn dag í einu. Ég þurfti að hugsa um hvernig ég vildi vera sem forsetafrú og hvaða áhrif ég vildi hafa á samfélagið.“ Eliza vissi strax að hún vildi vera virk og gera gagn fyrir íslenskt samfélag, en hún var líka meðvituð um mikilvægi þess að aðlaga sig að nýjum kringumstæðum og nýta tækifærin sem þeim fylgdu.

„Þegar ég lít til baka þessi átta ár hafa jafnréttismál alltaf verið mikilvæg fyrir mig,“ segir Eliza. Hún hefur nýtt stöðu sína og rödd sína til að vekja athygli á jafnréttismálum og stuðla að framförum í þeim efnum. „Ég vildi nýta rödd mína, rödd sem er með hreim þegar ég tala íslensku og reyna að breyta viðhorfum til maka þjóðhöfðingja.“

Hún segir það þó hafa verið að mörgu leyti skrítna upplifun að vera skyndilega í þessari stöðu. „Þetta eru svo mikil forréttindi en til að byrja með fannst mér stressandi að það væri engin handbók eða reglur um þessa stöðu. Ég fór þó mjög fljótlega að líta það jákvæðum augum, það voru engar reglur til þess að brjóta og þá gat ég mótað þetta eftir mínu höfði.“

Að vera þjóðþekkt eiginkona

Það var ný reynsla fyrir Elizu að vera þjóðþekkt fyrir að vera eiginkona forsetans. „Ég var vön að vera sjálfstæð í mínum verkefnum. Núna var ég allt í einu þekkt fyrir að vera gift einhverjum,“ segir hún.

Hún bendir á að venjan sé að í hjónabandi séu báðir aðilar jafnir og að báðir gefi jafnt til þess. „Ég var allt í einu í þeirri stöðu að vera að vinna með makanum mínum og hann á vissan hátt yfir. Guðni er ekki manneskja sem myndi nokkurn tímann banna mér neitt en ég var mjög meðvituð um að hann gæti það. Skiljanlega höfðu hans verkefni forgang en það var alveg ný tilfinning fyrir mig.“

Hún bendir á að þetta fylgi auðvitað því að vera maki þjóðhöfðingja en þessi staða hafi stundum flækst fyrir henni. „Að sjálfsögðu á þjóðhöfðinginn að vera í fyrsta sæti en þetta er flókið og þegar maður er búinn að lofa að gera eitthvað fyrir hönd Íslands þá þarf maður sama stuðning frá teymi embættisins. Oftast var það þannig en ekki alltaf. Stundum þurfti ég aðeins að berjast fyrir mínu.“

Þetta var breyting sem tók tíma að venjast en Eliza ákvað að nýta þessa stöðu til góðs. Hún hefur sótt viðburði og haldið ræður um sérstöðu Íslands og vakið athygli á landi og þjóð með jákvæðum hætti. Hún hefur einnig haldið áfram að vinna fyrir Íslandsstofu og sótt viðburði á borð við Taste of Iceland, ferðamálaráðstefnur og fleira af því tagi. En hún hefur líka farið óvenjulegar leiðir og má minnast á að hún skrifaði grein í New York Times um stöðu maka þjóðhöfðingja, þar sem hún sagði að hún væri ekki handtaska eiginmanns síns til að grípa með þegar hentar. Greinin fékk mikla athygli og vakti umræðu um hlutverk maka þjóðhöfðingja.

Óþægindi besta leiðin til að stækka sig

Eliza talar um mikilvægi sjálfstrausts og segir bestu leiðina til þess að stækka sig þá að gera það sem er óþægilegt. „Ég hef mikið sjálfstraust og treysti innsæi mínu. Ég tek oft ákvarðanir sem eru utan við þægindahringinn minn, eins og þegar ég skrifaði greinina fyrir New York Times. Ég hafði ekki beðið um leyfi hjá neinum af ótta við að fá neitun og fékk mikla bakþanka kvöldið áður en hún kom út.“

Hún segist hafa óttast að fólk mynd álíta hana með mikla athyglisþörf og finnast erindið ómerkilegt vegna forréttindastöðu hennar. „Daginn eftir áttaði ég mig á að áhyggjurnar væru óþarfar og ég fékk ekkert nema góðar viðtökur og fann fyrir viðhorfsbreytingu í kjölfarið.“

Óöruggust í tengslum við tísku

Fatastíll hefur ekki verið efst í huga Elizu. Hún hefur lagt áherslu á að vera hún sjálf og ekki láta kröfur samfélagsins um útlit stjórna sér, en samt sýna hlutverki sínu virðingu.

„Ég er mest óörugg í tengslum við tísku og fatnað, þetta er ekki minn styrkleiki og ekki innan míns áhugasviðs. Í byrjun kosningabaráttunnar þurfti fjölskyldumynd af okkur, og það hringdi í mig stílisti og spurði mig hvernig ég myndi útskýra minn stíl. Ég svaraði honum að meðgöngubuxurnar pössuðu ennþá og ég hefði síðast keypt mér skó fyrir fimm árum síðan, þetta var bara ekki hluti af lífinu mínu þá. En að sjálfsögðu þurfti ég að byrja að pæla í þessu. Ég er bara sveitastelpa frá Kanada sem vil helst vera ómáluð í gallabuxum og ég vildi ekki breyta mér svo mikið að börnin myndu sjá að ég þurfti alltaf að taka tvo tíma á dag í að hafa mig til en um leið bera virðingu fyrir embættinu. “

Eliza hefur farið sínar eigin leiðir í fatavali og oft mætt í fatnaði sem hún hefur keypt notaðan.

„Þetta er líka tækifæri til þess að kynna íslenska hönnun og sýna fram á að það er hægt að vera fínn í einhverju frá Rauða krossinum. Svo má ekki gleyma því að ég er í sjálfboðastarfi og kaupi mín föt sjálf. Ég get ekki keypt mér gala kjól fyrir hvern einasta viðburð. Ég reyndi að feta einhvern milliveg hvað þetta varðar og held að það hafi bara tekist ágætlega.“

Að vera sýnileg og hvetja aðra af erlendum uppruna

Hún segir tækifærin vera mörg fyrir fyrrverandi þjóðhöfð- ingja en að makarnir þurfi að hafa meira fyrir því að sækja sín eigin tækifæri.

„Þau koma ekki til manns á silfurfati. En ég hef upplifað það líka sem kona af erlendum uppruna á Íslandi, að við komum kannski ekki fyrst upp í hugann þegar verið er að leita að einstaklingum fyrir ný verkefni. Ég er meira vön því hér að hugsa um það sem mig langar að gera og finna leið til að komast þangað, ekki að bíða eftir að allt komi til mín.“

„Það er skekkja í því að tuttugu prósent þjóðarinnar séu af erlendum uppruna en eru lítt sýnileg,“ segir Eliza. „Þetta á við um fleiri minnihlutahópa. Það er mikilvægt að við tökum meðvitaðar ákvarðanir um að breyta þessu og gefa öllum tækifæri.“

Hún vill meiri sýnileika og þátttöku allra hópa í samfélaginu og vinnur að því að skapa slík tækifæri. „Ég mun halda áfram að halda fyrirlestra og vonast til að hvetja fleiri konur og einstaklinga af erlendum uppruna til að sækja sín tækifæri.“

Ný skáldsaga og framtíðin

Eliza segir óvissuna sem tekur við óþægilega en er þó tilbúin að takast á við nýjar áskoranir og nýta þá reynslu sem hún hefur öðlast sem forsetafrú.

„Ég var að ljúka við skáldsögu sem heitir Dauði diplómats og kemur út á næsta ári á ensku og vonandi íslensku og fleiri tungumálum. Það verður svo framhaldsbók og ég fer beint í það að byrja á henni. “

Hún mun auk þess halda áfram að sækja ný tækifæri. „Ég sé mig ekki aftur í 9-5 starfi, en ég mun halda áfram að halda fyrirlestra, bæði um hluti sem tengjast Íslandi beint eins og sjálfbærni, ferðamennsku, bókmenntir og jafnréttismál en líka um mína eigin sögu. Sögu af stelpu sem ólst upp í sveit í Kanada, vissi varla að Ísland væri til og giftist íslenskum manni sem varð mjög skyndilega forseti. Ég vona að fólk geti tengt við sögu mína og að hún sé áminning um að grípa öll tækifæri sem gefast. Mér finnst mikilvægt að tala fyrir Íslandi hvert sem ég kem, til að lyfta íslenskum fyrirtækjum, frumkvöðlum og menningu.“

Spurð hvers hún hlakki mest til þegar hún er ekki lengur forsetafrú segir hún hversdagslegu hlutina mest spennandi. „Ég hlakka mest til að vera ekki máluð á hverjum degi og vera bara í gallabuxum,“ segir hún og hlær. „Við erum líka að byggja hús sem verður vonandi tilbúið áður en við förum frá Bessastöðum.“

Eliza segist hafa lært mikið á síðustu átta árum og að hún sé stolt af því hvernig hún hefur nýtt tækifærin sem hafa orðið á vegi hennar. „Ég horfi til baka með hlýju og söknuði,“ segir hún að lokum með bros á vör.