Einhverjum kynni að þykja óvenjulegt að fá hænu í jólagjöf. Eftirspurn eftir að taka landsnámshænu í fóstur hjá íslensku landnámshænunni í Þykkvabæ er hins vegar svo mikil að Júlíus Már Baldursson hefur ekki undan. Hænurnar dvelja þó áfram í góðu yfirlæti hjá Júlíusi í Þykkvabænum, en fósturforeldrið fær mánaðarlega send egg og fréttaskeyti frá bænum.

„Það er meira að segja hringt hingað á Þorláksmessukvöld,“ segir Júlíus. Júlíus hóf hænsnabúskap árið 1978. „Jón heitinn Guðmundsson á Reykjum í Mosfellsbæ benti mér á að hafa samband við Stefán Aðalsteinsson hjá rannsóknarstofu landbúnaðarins, því hænurnar sem hann var sjálfur með væru blendingar þótt þær væru litskrúðugar,“ segir Júlíus, en Stefán hafði um 1970 farið að safna eggjum og fuglum af hinum svokallaða íslenska stofni víða um landið.

„Ég fékk hjá honum fugla og hef búskap í Dölunum – tíu hænur og tvo hana – en flyt síðan á Tjörn í Vatnsnesi.“ Mikill harmleikur varð á Tjörn í mars 2010 þegar stórbruni olli honum miklu tjóni. „Allt sem var þar brann, bæði dýr og fuglar. En það er stundum sem forlögin virðast grípa í taumana því venjuleg fór ég aldrei með egg inn í bæ. En ég var snemma á fótum morguninn fyrir brunann og hef verið annars hugar því allt í einu uppgötva ég að ég er kominn inn í bæinn með tvær eggjakörfur með 120 eggjum hvorri.“ Þetta varð til þess að hann missti ekki allan stofninn heldur gat komið þeim í útungunarvélar.„Fuglarnir sem ég er með eru afkomendur þessara fugla,“ segir Júlíus og ekki laust við að maður fái gæsahúð við að heyra þessa frásögn.

Meiri áhugi á dýravelferð Júlíus hætti að endingu búskap á Tjörn og kom sér fyrir í Þykkvabænum sumarið 2013. „Ég er með um 300 hænur og um 40 hana en þegar mest er í húsinu og útungun á sumrin er ég með um 1.200 fugla.“

Fuglarnir eru alls ekki allir í fóstri en sem stendur eru þeir um 100 – og 300 manns á biðlista sem gengur hægt að saxa á því flestir fósturhænueigendur vilja endurnýja samninginn. Júlíus segir eftirspurn eftir fósturhænum lengi hafa verið mikla. Hann telur ástæðuna vera blöndu af áhuga fólks á því að vita hvaðan maturinn kemur og aukinn áhuga á dýravelferð. Síminn stoppaði til dæmis ekki fyrr en eftir miðnætti þegar Kastljós RÚV fjallaði um Brúneggjamálið svokallaða.

„Það var allt klikkað hérna. Bara allt klikkað. Ég horfði á tölvupóstana streyma inn og síminn stoppaði ekki. Ég veit ekki af hverju ég fékk þessa holskeflu yfir mig en sumt fólkið sem hringdi í mig var bara grátandi í símann.“

Fósturhæna kostar 25.000 krónur og varir fóstrið í ár. Á þeim tíma fær fósturforeldri kíló af eggjum í upphafi hvers mánaðar. Eggin er hægt að sækja í Frú Laugu við Laugalæk. Hægt er að kynna sér hænurnar nánar á vefslóðinni landnamshaenan.is

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .