Rætt er við Elísabetu Sólbergsdóttur og Þorvald Víði Þórsson um vegferð þeirra á hundrað hæstu tinda landsins í sérblaðinu Ferðalög & útvist , sem fylgdi Viðskiptablaðinu og er opið öllum til lestrar.
167 tindar á 9 mánuðum
Árið 2007 gekk Þorvaldur Víðir Þórsson, kallaður Olli, á 167 tinda á Íslandi til að komast að því hvaða tindar væru meðal 100 hæstu tinda landsins en verkefnið tók hann ekki nema 9 mánuði og 13 daga en heildarfjöldi klukkustunda á göngu var um 690. Olli miðaði við að hver tindur þyrfti að tróna að minnsta kosti 50 metra upp úr umhverfi sínu til að vera gjaldgengur á listann.
„Á þessum tíma voru 100 hæstu tindar landsins ekki þekktir og ég varð hreinlega að fara á staðinn og láta GPS tækið tikka og mæla svo eftir á hvaða tindar reyndust með næga trónun," segir Olli.
Næstu tveir til að toppa 100 hæstu voru Kristján Þ. Halldórsson og Magnús Ingi Óskarsson árið 2014, en Olli vinnur með þeim um þessar mundir að útgáfu bókar um tindana og er markmiðið að koma henni út sem fyrst. Í bókinni verður að finna leiðarlýsingar og leiðbeiningar til gagns fyrir þau sem hyggjast sigra 100 hæstu.
Olli gekk á 167 hæstu tinda landsins á um 9 mánuðum. Myndin er aðsend.
Skortur á leiðarlýsingum áskorun
Bók Olla og félaga mun vafalaust koma að miklu gagni, en Elísabet Sólbergsdóttir segir það einmitt flækja verkefnið að hafa engar lýsingar. Elísabet sat í stjórn Ferðafélags Íslands þegar „Hundrað hæstu" verkefnið var samþykkt. Spurð hvort hún ætlaði að taka þátt svaraði hún umhugsunarlaust játandi, án þess að gera sér grein fyrir umfanginu.
„Ég taldi mig hafa farið á miklu fleiri tinda en ég hafði í raun og það hvarflaði ekki að mér að ég þyrfti að fara margoft á öll svæðin aftur. Margir tindanna eru á jökli þannig þú þarft að rýna í sprungukort og vera með jöklabúnað. Það er líka oft flókið að komast að upphafsstað og frá endastað. Þetta er flókið vinnulega séð, því þú verður að ná veðurglugga í mörgum ferðanna." segir hún.
Elísabet hefur þegar gengið á um 70 tinda og stefnir að því að ljúka áskoruninni á næsta ári. Hún segir öll fjöll hafa sinn sjarma en að ögrandi tindar Tröllaskaga hafi komið sér mest á óvart. Helsta áskorunin á vegferð hennar hafi verið skortur á leiðarlýsingum.
„Oft eru engar leiðarlýsingar til staðar, það er hvernig komast megi að og hver besta uppgönguleiðin er. Oft eru engar myndir til, þannig ég var stundum í vandræðum með að átta mig á því um hvaða tind á svæðinu væri að ræða. Það eru heldur ekki til GPS hnit af mörgum leiðanna og stundum er erfitt að finna tindana á korti, til dæmis bæði í Vonarskarði og á svæðinu við Kverkfjöllin."
Gengið flesta tindana tvisvar eða oftar
Upphaflega ætlaði hún að safna tindunum með skipulögðum ferðum en eftir því sem á leið áttaði hún sig á því að það gekk of hægt. Ferðirnar eru enda ekki sérsniðnar að hennar lista og því hafi hún sífellt verið að ganga á tinda sem hún hafði þegar gengið á til að ná þeim sem hún átti eftir á því svæði og jafnvel án þess að komast á tindana sem vantaði.
„Ég hef því farið á flesta tindana tvisvar og suma oftar. Það þarf líka að taka tillit til þess að ég verð 63 ára á þessu ári og þetta eru þannig ferðir að þær krefjast gífurlegrar seiglu og kapps. Með þessu framhaldi sá ég fram á að ég yrði búin að þessu á mínu 100 ára afmæli, í stað ferðafélagsins," segir Elísabet.
Sumarið 2019 fór hún því að gefa í og síðasta sumar fór hún markvisst að safna tindum með aðstoð vinnufélaga og leiðsögumanna.
„Þetta árið er ég meðal annars búin að semja við Leif Örn Svavarsson að fara í nokkrar ferðir með mér. Núna er lag vegna faraldursins, því maður hefur ekki aðgang að svona flottum leiðsögumönnum í eðlilegu árferði. Nú get ég einblínt á þá tinda sem ég á eftir og ég stefni á að fara í að minnsta kosti sex Vatnajökulsferðir í ár."
Nánar er fjallað um málið í Ferðalög & útivist, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Hægt er að nálgast blaðið hér .