Á laugardaginn opnar ný sýning í Ásmundarsafni sem ber heitið „Ásmundur Sveinsson: Undraland“, þar sem gestir fá einstakt tækifæri til að skyggnast inn í sögu listsköpunar Ásmundar Sveinssonar, eins fremsta myndhöggvara Íslendinga.

Sýningin dregur upp mynd af vinnustofu Ásmundar, þar sem hann skapaði verk sín í þrotlausri tilraunamennsku. Gestir fá innsýn í þær ólíku aðferðir og tímabil sem einkenndu list hans, þar sem efni, rými og inntak kölluðust stöðugt á.

Saga Undralands

Sýningin er einnig virðingarvottur við sögu Ásmundarsafns, sem áður var heimili og vinnustofa listamannsins. Húsið hannaði Ásmundur sjálfur og reisti á árunum 1942-1950 í túnfæti jarðar sem hét Undraland. Safnið var stofnað árið 1983, ári eftir andlát listamannsins, þegar hann hafði ánafnað Reykjavíkurborg húsið og verk sín. Undraland var í fjóra áratugi miðpunktur frjórrar sköpunar Ásmundar, og gestir fá nú tækifæri til að upplifa það umhverfi sem mótaði list hans.

Samtímalistamenn í Undralandi

Samhliða sýningunni hefst nýtt verkefni sem stendur yfir árið 2025, þar sem samtímalistamenn taka við keflinu í Undralandi. Fyrstur til að vinna í þessu rými er Unnar Örn, en í framhaldinu munu Ásta Fanney Sigurðardóttir, Halldór Ásgeirsson, Amanda Riffo og Sara Riel taka þátt í verkefninu með nýjum verkum í vinnslu.

Sýningin er einstakt tækifæri til að dýpka skilning á listsköpun Ásmundar Sveinssonar og kynnast nýjum hliðum hans. Allir eru hjartanlega velkomnir í opnunina laugardaginn 11. janúar kl. 15:00.