Fyrir rúmlega tveimur árum gekk franska knattspyrnufélagið Paris Saint-Germain (PSG) frá samningi við Argentínumanninn Lionel Messi, sem af mörgum er talinn besti knattspyrnumaður allra tíma. Þar með var framlína PSG fullkomnuð en fyrir voru á mála hjá félaginu Brasilíumaðurinn Neymar, sem félagið gerði að dýrasta knattspyrnumanni allra tíma árið 2017, og ungstirnið Kylian Mbappé, næst dýrasti knattspyrnumaður allra tíma.
Með framlínu sem samanstóð af besta knattspyrnumanni allra tíma, besta unga knattspyrnumanni heims og dýrasta knattspyrnumanni heims var að sjálfsögðu stefnt á sigur í hverri einustu keppni. Aðalmarkmiðið var þó að landa sigri í keppni þeirra bestu, Meistaradeild Evrópu.
Messi og Neymar farnir og óvissa hjá Mbappé
Til að gera langa sögu stutta gekk þessi tilraun PSG til að vinna Meistaradeildina, með því að sameina krafta þriggja ofurstjarna í framlínu félagsins, engan veginn upp. Á þeim tveimur tímabilum sem Messi, Neymar og Mbappé spiluðu saman í framlínu PSG féll félagið í bæði skiptin úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. PSG endaði vissulega á toppi í frönsku deildarinnar bæði tímabilin, en þar á bæ er það algjör lágmarkskrafa.
Stuðningsmenn PSG eru kröfuharðir og áttu því erfitt með að sætta sig við að árangurinn í Meistaradeildinni hafi ekki verið betri en raun bar vitni. Á síðari hluta síðasta keppnistímabils tóku stuðningsmennirnir að snúast gegn Messi og Neymar. Skilaboð stuðningsmannanna voru skýr; nærveru ofurstjarnanna frá Argentínu og Brasilíu var ekki lengur óskað.
Stuðningsmönnum varð svo að ósk sinni í sumar. Samningur Lionel Messi í París rann sitt skeið og gekk hann til liðs við David Beckham og félaga í bandaríska knattspyrnuliðinu Inter Miami sem leikur í MLS deildinni.
Framtíð Brasilíumannsins var í töluverðri óvissu framan af sumri en að lokum fetaði hann í fótspor margra annarra knattspyrnustjarna og flutti búferlum til Sádí-Arabíu. PSG seldi Neymar fyrr í ágúst til Al-Hilal þar í landi og er talið að kaupverðið hafi numið um 90 milljónum evra. Launapakkinn er að sjálfsögðu ekkert slor en Neymar skrifaði undir tveggja ára samning sem tryggir honum um 162 milljónir evra í laun á samningstímanum. Það sem þó hefur vakið mesta athygli eru fríðindin sem samningurinn tryggir Brasilíumanninum knáa. Einkaflugvél, risavilla með starfsfólki, 80 þúsund evrur fyrir hvern sigurleik og hálf milljón evra fyrir samfélagsmiðlafærslur sem birta Sádí-Arabíu í jákvæðu ljósi eru meðal ótrúlegra fríðinda sem samningurinn felur í sér samkvæmt fréttum ýmissa fjölmiðla.
Framtíð eina leikmannsins sem eftir er hjá PSG af sóknartríóinu, Kylian Mbappé, hefur einnig verið mikið til umræðu. Samningur hans rennur út næsta sumar og hefur hann tilkynnt félaginu að hann hyggist ekki framlengja samninginn. PSG brást við með því að stinga Mbappé í frystikistuna og hefur samhliða freistað þess að selja Frakkann, til að missa hann ekki frá félaginu án greiðslu næsta sumar. PSG samþykkti fyrr í sumar 300 milljóna evra boð Al-Hilal í Mbappé en hann hafði engan áhuga á félagsskiptunum.
Líklegast þykir að Mbappé endi hjá spænsku risunum í Real Madrid og jafnvel talið að hann hafi þegar samið um að ganga til liðs við félagið næsta sumar. Fróðlegt verður að fylgjast með málefnum Mbappé þar til félagsskiptaglugginn lokar eftir rúma viku. PSG leyfði honum nýverið að snúa aftur til æfinga með aðalliði félagsins og í síðasta deildarleik kom hann inn á sem varamaður. Nýjustu fréttir herma þó að Real Madrid ætli að leggja fram tilboð í leikmanninn fyrir gluggalok.
Það er því aldrei að vita nema öll ofurframlína PSG hverfi frá félaginu í einum og sama félagsskiptaglugganum.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.