Jólafríinu er ætlað að skapa samsverustundir með fjölskyldunni og þá er fátt betra en að setjast yfir góðum spilum, jafnvel við notalegt kertaljós. Þegar bæði vanir og óvanir setjast niður er gott að vera með aðgengileg spil, sem skapa samræður og samskipti og ekki þarf að eyða of miklum tíma í að kynna reglurnar.

Í huga sumra þegar borðspil eru nefnd kemur hið 83 ára gamla spil Monopoly oft fyrst í hugann. Það er miður því mörg mun betri spil hafa komið fram á sjónarsviðið síðustu ár og áratugi. Því var ákveðið að velja fjölbreytt spil í lista jólagjafahandbókarinnar í ár, sem oft byggja ekki eingöngu á heppni og geta verið spennandi fram á síðustu stundu, þó þau taki mislangan tíma í spilun.

Eflaust vita margir ekki að eitt vinsælasta spil síðustu ára, Landnemarnir á Catan, er innblásið af landnámi Íslands. Spilið hefur verið selt í meira en 22 milljónum eintaka og á meira en 30 tungumálum. Spilið er eitt það þekktasta í flokki svokallaðra þýskra eða evrópskra spila sem hafa rutt sér til rúms síðustu árin.

Öfugt við bandarísk spil eins og áðurnefnt Monopoly byggja þau síður á heppni og frekar á herkænsku og viðskiptum með gagnkvæmum ábata. Í sumar seldi höfundur spilsins fyrirtækið kringum útgáfuna á 1,4 milljarða dala, eða sem samsvarar nærri 170 milljörðum íslenskra króna sem varpar ákveðnu ljósi á viðvarandi vinsældir borðspila. Það er því ljóst að hið fornkveðna, að gefa í það minnsta kerti og spil á enn við á jólunum.

Settlers of Catan

Landnemarnir á Catan / Settlers of Catan
Landnemarnir á Catan / Settlers of Catan
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Leikendur í Landnemunum á Catan velja sér í byrjun tvær staðsetningar sem veita aðgang að mismunandi auðlindum, en safna síðan stigum með því að byggja upp fleiri byggðir út frá þeim. Hver bær, sem hægt er að uppfæra í enn framleiðnari borgir, hefur aðgang að þremur af fimm mismunandi auðlindum sem nýtast til frekari uppbyggingar. Spilið kallar á mikil samskipti milli leikenda og viðskipti því oft hefur annar spilari aðgang að auðlindum sem þig vantar og öfugt. Fjölmargar viðbætur hafa svo komið ofan á grunnspilið.

  • Fjöldi: 2-4 spilarar, en með viðbót 6 spilarar
  • Spilunartími: 1,5 til 3 tímar, fer eftir fjölda spilara
  • Aldur: 10 ára og upp úr

Las Vegas

Las Vegas spilið
Las Vegas spilið
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Markmiðið er að safna sem mestu fé í sex spilavítum sem hvert um sig er merkt með einni hlið á teningnum og hafa mismikið fé í boði. Það byggir á áhættusækni, heppni og kænsku í vali á markmiðum. Hver leikandi skiptist á að kasta 8 teningum í eigin lit. Síðan er valið að setja þá á spilavítin eftir því hvaða hlið kemur upp á þeim eða þeim er kastað aftur. Þannig snýst baráttan um það hver endar með flesta teninga á hverjum stað.

  • Fjöldi: 2-5 leikendur
  • Spilunartími: 30 mínútur
  • Aldur: 8 ára og upp úr

Sabateur

Saboteur spilið
Saboteur spilið
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Skemmtilegt spil byggt á blekkingum og skemmdarverkum. Leikendur spila dverga sem reyna að grafa göng í áttina að gulli, en hluti af þeim hefur svo það leynilega verkefni að skemma fyrir og stöðva að það takist. Hlutverkin og getan til að grafa, skemma fyrir eða hjálpa raðast af handahófi en hvernig spilað er úr spjöldunum sem hver fær veltur á útsjónarsemi og að geta haldið sínu hlutverki sem skemmdarvargur leyndu sem lengst. Fyrirferðarlítill kassi og því fullkomin gjöf í skóinn fyrir jólasveina.

  • Fjöldi: 3-10 spilarar
  • Spilunartími: 30 mínútur
  • Aldur: 8 ára og upp úr

Ticket to Ride

Ticket to Ride spilið
Ticket to Ride spilið
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Spil sem jafnvel þeir sem segjast síst af öllu hafa áhuga á borðspilum geta notið þess að spila. Leikendur byggja upp lestarteina milli borga og bæja í keppni við aðra um leiðir og stig. Því lengri leiðir því fleiri stig en leikendur fá einnig sérstök verkefni um að tengja ákveðnar leiðir sem gefa aukastig ef uppfyllt. Gerðar hafa verið fjölmargar útgáfur sem taka fyrir ýmis lönd og landsvæði, sem bæta við flækjustigum, en upphaflega kortið er fyrir Bandaríkin. Jafnframt eru til einfaldar barnaútgáfur.

  • Fjöldi: 2-5 leikendur
  • Spilunartími: 30 til 60 mínútur
  • Aldur: 8 ára og uppúr

Hanamikoji

Hanamikoji spil
Hanamikoji spil
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Töluvert öðruvísi tveggja manna spil frá Japan sem byggir á því að geta lesið andstæðinginn og haft áhrif á hann. Markmiðið er að sannfæra fjórar af sjö Geishum til að velja þig eða þær sem samsvara samanlagt 11 stigum. Það er gert með því að bjóða mismunandi áhrifaspjöld af gerðum sem þær eru hver um sig áhugasamar um. Hvor leikandi hefur enungis fjórar leiðir til spila út þeim áhrifaspjöldum sem þeir hafa á hendi, sem sumar byggja á að bjóða andstæðingnum ómögulega valkosti.

  • Fjöldi: 2 leikendur
  • Spilunartími: 15 mínútur
  • Aldur: 10 ára og uppúr

Splendor

Splendor spilið
Splendor spilið
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Keppni í að safna stigum með því að kaupa spjöld með gimsteinum sem aftur gefa fleiri gimsteina til að kaupa fleiri spjöld af hærra stigi. Leikendur eru verslunarmenn á tímum Upplýsingarinnar, og tákna stigin 15, sem keppst er um að ná fyrstur, völd og virðingu. Í hverri umferð getur hver spilari gert eitt af þrennu, sótt sér þrjá af fimm mismunandi gimsteinum (eða tvo eins), keypt eða tekið frá spjald. Hægt er að sjá hvað aðrir spilarar geta keypt og þannig skemmt fyrir.

  • Fjöldi: 2-4 leikendur
  • Spilunartími: 30 mínútur
  • Aldur: 10 ára og uppúr

Exploding kittens

Exploding Kittens spilið
Exploding Kittens spilið
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Fyndið og skemmtilegt spil sem minnir helst á rússneska rúlletu þar sem leikendur draga mismunandi spjöld úr bunka þangað til einhver dregur hinn sprengifima kettling og deyr þar með. Sum spilin gefa þó tækifæri að forðast að leikandi lendi sjálfur í að draga hinn springandi kettling með því koma vandanum yfir á næsta leikanda. Þannig er hægt að spila t.d. út spjöldum sem sýna þér hvað kemur næst, lætur annan spilara draga mörg spjöld eða stokka þarf upp á nýtt, svo spennan magnast sífellt.

  • Fjöldi: 2 – 5 leikendur
  • Spilunartími: 15 mínútur
  • Aldur: 7 ára og uppúr

Codenames

Codenames spilið
Codenames spilið
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Tvö lið, hið rauða og hið bláa reyna að ná sambandi við sína njósnara fyrst. Sjórnandinn í hvorum hóp segir eitt stakt orð sem gefur vísbendingar sem aðrir leikendur í liðinu nota til að velja sem flest af réttum orðum skrifuð hvert um sig á 25 spjöld. Á hliðinni sem snýr niður sýna spjöldin eitt af þrennu, það er í hvoru liðinu viðkomandi njósnari er í, saklausir borgarar auk eins leynimorðingja sem drepur liðið sem óvart snýr því spjaldi við.

  • Fjöldi: 2 – 5 leikendur
  • Spilunartími: 15 mínútur
  • Aldur: 7 ára og uppúr

Jólagjafahandbókin fylgdi síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .