Listamaðurinn Anna Rún Tryggvadóttir vinnur með skúlptúra, innsetningar og efnislega gjörninga sem kanna samband manns og náttúru. Verkin hennar ögra hefðbundnum hugmyndum vestrænnar menningar um náttúruna og efnisheiminn, þar sem jörðin og landslagið sameinast í gjörningum hennar.

Hún varpar nýju ljósi á tengslamyndun manns og umhverfis með því að skoða hvernig náttúran og vélrænar gjörðir renna saman. Meðal nýlegra sýninga hennar eru „Margpóla“ í Listasafni Íslands og „Fljótandi fastar“ í Svíþjóð.

Hvenær byrjaðirðu að búa til myndlist og hvernig kom það til að þú fórst að skapa?

Ég hef alltaf heillast af því að vinna með efni og í höndunum. Ég var með gott verkvit frá því að ég man eftir mér, og var svo heppin að geta sótt allskonar handverkslærdóm og efnisþekkingu í nærfjölskyldu mína. Þegar ég var tólf ára fékk ég dellu fyrir keramiki og var með leirframleiðslu í svefnherberginu mínu.

Mömmu fannst þetta óþrifalegt og sannfærðist um að tengsl væru á milli þráláts hósta og leirmuna á ýmsum þurrkstigum í herberginu mínu. Hún mútaði mér út með starfsemina með því að leigja fyrir mig aðstöðu á keramikverkstæði. Þar mætti ég reglulega og vann að þessum tilraunum í góðum félagsskap eldri kvenna í heilan vetur.

Þegar ég lít til baka er mér ljóst í hvað stefndi. Það er hins vegar flóknara fyrir mig að svara því hvenær ég fór að búa til „myndlist“. Ég tók bæði myndlistadeildina og fatahönnunardeildina í FB og fór þaðan í Listaháskólann í myndlist. Ég var auðvitað allan tímann að búa til „nemendalist” en mér finnst ég ekki hafa fundið leiðina að minni listsköpun fyrr en ég fór í meistaranám til Kanada.

Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?

Einstaka myndlistarmenn hafa verið gríðarlega áhrifamiklir í mínu lífi, sá fyrsti sem ég kynntist og tengdi við var Leonardo DaVinci. Svo tóku við allskonar aðrir mentorar, ég hef alltaf heillast af mystíkinni í lífinu sem og krítískri afstöðu til valdastrúktúra.

En mig langar til að nefna myndlistasýningu sem hafði mjög mikil áhrif á mig. Á Feneyjatvíæringnum árið 2022 urðu þau tímamót að aðalsýning tvíæringsins endurskrifaði kanónu samtímalistar. Cecilia Alemani hafði sett saman 213 listamenn á sýningu sem bar titilinn Mjólk draumanna. Af þeim 213 listamönnum sem hún valdi til þátttöku voru 90% kvenkyns og kvár listamenn. Þetta framlag var sláandi opinberun á því hversu ótrúlega þröngt sjónarhorn myndlistar hefur alltaf verið. Að útiloka hið kvenlæga og kynsegin, hafði nært viðhorf í myndlist sem skorti nauðsynlegan reynsluheim sem tengist náttúrunni og hinu efnislega á annan hátt en karllægan.

Hvernig er hefðbundinn vinnudagur hjá þér?

Það er nú eiginlega ekkert til sem heitir hefðbundinn vinnudagur í mínum bókum. Það sem límir dagana saman er kaffivélin, hundurinn, börnin mín og Vesturbæjarlaug, en að öðru leyti eru dagarnir sniðnir í kringum þau verkefni sem ég vinn hverja stundina.

Sumir dagarnir fela í sér hugmyndavinnu, leit að rétta þræðinum, tóninum eða viðfangsefninu, þetta getur verið mjög krefjandi og jafnvel örvæntingarfullt tímabil og þá þarf ég að fara í sund eða út í náttúruna til að stilla mig af. Ef ég er komin lengra með verkefnin þá er vinnan skemmtilegri, þar sem ég get gleymt mér í því að framkvæma. Ef ég er í textavinnu, eins og síðustu vikur þá vinn ég gjarnan heiman frá mér, nálægt kaffivélinni og þar sem ég get verið í náttfötunum allan daginn ef mér sýnist svo.

Hvaðan ertu helst að fá innblástur þessa dagana?

Ég er blessunarlega mjög forvitin, og alltaf í leit að því sem hreyfir við mér. Innblástur á sér ólíkan uppruna eftir því hvaða part þarf að næra. Innblástur sem nærir sálina getur komið úr hversdagslegum upplifunum á borð við sólmagnið sem leikur við laufkrónuna fyrir utan gluggann hjá mér, speglun á vatnspollum eða ljósbrot á sjónum eða að sjá hundinn minn breakdansa í alsælu úti á túni. Lítil augnablik af jarðtengingu og þakklæti.

Innblástur fyrir listina kemur yfirleitt óvænt. Oft í svona Theta ástandi, þegar ég er í hugleiðslu, göngutúr eða að keyra úti í náttúrunni. Þá er eins og hugmynd detti ofan í hausinn á mér, eða birtist úr engu. Í kjölfarið hefst eltingarleikur við að koma henni í form.

Hvað hvetur þig áfram í listinni?

Það hefur breyst með árunum. Ég hef alltaf verið upptekin af hugmyndum um þjónustu, og praktísera myndlist mikið út frá því hugtaki.

Í mínum uppvexti og listnámi upplifði ég skort á fyrirmyndum í myndlist í okkar alþjóðlegu samtímalistasögu. Það var hvatning fyrir mig að ræða um þau málefni sem brunnu á mér. Í dag er myndlistin orðin svo mikið akkeri fyrir mig í lífinu, ég treysti á myndlistina og hef aldrei gert neitt annað. Hvatningin er hreinlega fólgin í því að sinna þessari köllun.

Hverju ertu að vinna að núna?

Þessa dagana er ég að klára útilistaverk sem háskólinn í Stavanger réð mig til að framkvæma, hljóðverk sem er tengt háskólasvæðinu. Verkið sprettur upp úr ákveðnu samhengi þar, það er búið að bora allan jarðgrunninn í sundur undir háskólasvæðinu og koma fyrir jarðvarmadælu. Þær eru svo tengdar saman með undirgöngum sem flytja vökva til og frá og nýta stöðugt hitastig bergsins til að knýja lungann af allri orkuþörf alls háskólasvæðisins.

Ég er með nokkuð víðtækt blæti fyrir steinum, jarðlögum og jarðefnum og ákvað að vinna með þetta sem efnvið. Úr varð ljóðræn hugleiðsla um þau gríðarlegu tengsl sem manneskjan hefur við jarðefni fyrir allar okkar þarfir. Svo er ég að þróa stóra sýningu sem verður í einkasafni í Norður-Þýskalandi næsta sumar, þar sem ég mun sýna ný tvívíð verk og er að leita fyrir mér með nýja miðla, akríl og olíu.