Breska blaðið Daily Mirror birti á dögunum lista yfir 100 vinsælustu orðin eða leitarstrengina sem Bretar leituðu eftir á Netinu á nýliðnu ári. Þar er Ísland (Iceland) í 69. sæti og aðeins fimm lönd eru ofar á listanum. Sem fyrr segir er listinn byggður á niðurstöðum af leitarvélum og gefur hugmynd um hvað það er sem Bretar hafa verið að afla sér upplýsinga um á Netinu.
Í frétt um málið inni á vef Ferðamálaráðs er haft eftir Halldóri Arinbjarnarsyni, vefstjóra Ferðamálaráðs, að góð staða á leitarvélum sé lykilatriði fyrir þá sem vilja vera sýnilegir á Netinu. Þetta á t.d. við um landkynningarvefi Ferðamálaráðs og var töluverð vinna lögð í þann þátt á nýliðnu ári. "Ég hef lagt áherslu á að ná góðum árangri á helstu leitarvélum með orðið "Iceland" og ýmsar samsetningar af því og held að við getum allvel við unað. Google-leitarvélin hefur reyndar borðið höfuð og herðar yfir keppinauta sína og ef þú slærð þar inn orðið Iceland kemur landkynningarvefur Ferðamálaráðs, visiticeland.com sem fram til þessa hefur heitið icetourist.is, upp í 3. sæti. Sama á við um aðrar leitarvélar. Ef þú notar orðið "Iceland" í leit þá eru landkynningarvefir okkar allsstaðar meðal þeirra efstu," segir Halldór.
Af einstökum löndum eru það aðeins Kýpur (24. sæti), Spánn (44. sæti), Frakkland (48. sæti), Ástralía (56. sæti) og Malta (64. sæti) sem eru ofar á listanum og einnig má finna þar stórborgirnar London, Amsterdam og París. Fyrir neðan Ísland má hins vegar t.d. finna vinsæla ferðamannastaði eins og Majorka og Flórída. Það kemur e.t.v. ekki á óvart að orð tengd knattspyrnu eru áberandi á listanum en þó skákar Ísland t.d. goðinu David Beckham. Listi Daily Mirror.