Dr. Erla Björnsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns, en hún kynnti nýlega til sögunnar nýtt snjallforrit, She-Sleep, sem er fyrsta svefnforritið í heiminum sem er eingöngu fyrir konur.
Svefnleysi er nokkuð algengt vandamál og Erla bendir á að um helmingur þeirra sem leiti til heilsugæslu sé að glíma við svefnvanda.
„Það sem kannski gerir Íslendinga frábrugðna öðrum er að rannsóknir hafa sýnt að við förum seinna að sofa heldur en aðrar þjóðir. Mögulega af því að við erum ekki alveg á réttu tímabelti. Við notum líka miklu meira af svefnlyfjum og erum með heimsmet í notkun þeirra miðað við höfðatölu, bæði hjá fullorðnum og börnum, sem er mikið áhyggjuefni.“
Hún segir að svefnlyf geti nýst vel við ákveðnar aðstæður til þess að rjúfa vítahring skammtíma svefnleysis en mælir ekki með þeim við langvarandi vanda.
„Ef við lendum í skyndilegu svefnleysi, áfalli eða veikindum er hægt að nota svefnlyf í skamman tíma. Ef svefnleysið er langvarandi þá er eitthvað í lífsstílnum, líðan eða umhverfi sem er að hafa áhrif og það verður að vinna með þá þætti til þess að uppræta vandann.“
Erla segir að allir eigi að geta fengið lausn við svefnvanda en að vandinn sé auðvitað misalvarlegur og af ólíkum orsökum.
„Þetta er flókið og það er allt í lífinu sem getur haft áhrif á svefn. Hugræna atferlismeðferðin snýst um að kortleggja svefn, lífsstíl og streituvalda til þess að geta unnið með þetta heildrænt og breyta venjum. Það tekur auðvitað tíma og getur verið erfitt en árangurinn er mjög góður. Ég hef ekki ennþá hitt manneskju sem getur ekki gert breytingar til þess að bæta svefninn sinn.“
Viðtalið við Erlu Björnsdóttur er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út 22.maí. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.