Íslenska landsliðið í krikket spilaði sinn fyrsta æfingarleik í nýju búningum liðsins á Hamranesvelli í Hafnarfirði í gær. Landsliðið samanstendur af leikmönnum sem koma frá mismunandi löndum þar sem krikket er spilað af miklum ákafa.

Leikurinn var jafnframt haldinn samhliða kynningu bökufyrirtækisins Arcitc Pies sem vinnur nú að því að safna fyrir nýjum matvagni á Karolina Fund. Arcitc Pies er jafnframt styrktaraðili bæði landsins og krikketliðsins Kópavogur Puffins.

Jakob Wayne Víkingur Róbertsson, eigandi Arctic Pies og landsliðsmaður í krikket, bauð Viðskiptablaðinu að fylgjast með leik liðsins um helgina en hann segist finna fyrir sívaxandi áhuga á íþróttinni á Íslandi.

„Það hefur stundum reynst erfitt að útskýra krikket fyrir Íslendingum en fyrir einhvern eins og mig, sem er hálfíslenskur og hálfástralskur og hefur verið á Íslandi síðan 2001, þá er ég ekki að reyna að draga alla inn í þetta. Ég sé hins vegar að fólk er forvitið og við viljum bara gera þetta aðlaðandi fyrir Íslendinga með því að hafa gaman.“

Jakob er vinsæll í liðinu bæði fyrir krikkethæfileika sína og líka fyrir áströlsku bökurnar sínar. Hann vinnur í því að safna fyrir sérsmíðuðum matvagni sem mun mæta á einkaviðburði og hátíðir eins og Götubitahátíðina.

„Fólk getur pantað okkur fyrir einkaviðburði en við erum nú þegar bókaðir í eitt brúðkaup í september. Við viljum bara gera bökur aðgengilegar fyrir fólk og planið er að mæta á viðburði og bjóða fólki líka að kaupa bökurnar í verslunum.“

Jakob tók við glænýrri húfu landsliðsins í krikket við formlega athöfn í gær.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Byrjaði á bar á Kýpur

Krikket er tiltölulega ný íþrótt en saga krikket á Íslandi hófst með tveimur Íslendingum, Ragnari Kristinssyni og sagnfræðingnum Stefáni Pálssyni, sem fylgdust með krikketleik í sjónvarpi á bar á Kýpur árið 1999.

Það var í fyrsta sinn sem þeir félagar sáu krikket og þrátt fyrir að vita ekkert um reglur íþróttarinnar þá voru þeir staðráðnir í að stofna fyrsta íslenska krikketliðið. Sagt er frá sögu þeirra í bókinni From Lord‘s to the Fjords: The Saga og Icelandic Cricket eftir Kit Harris.

Í dag eru fjögur krikketlið sem heyra undir Krikketsamband Íslands en þau eru Reykjavik Vikings, Kópavogur Puffins, Hafnarfjörður Hammers og Vesturbær Volcano.

„Fyrir rúmum tíu árum síðan vorum ég og annar leikmaður í liðinu, Abishek, að spila saman á Klambratúni en það var ekki fyrr en við fórum að spila í Sporthúsinu og sóttum um styrki að þetta fór að þróast af alvöru,“ segir Jakob.

Aukinn áhugi meðal fyrirtækja og barna

Landsliðið hefur nú fengið til sín ýmsa styrktaraðila á borð við Arctic Pies og súkkulaðifyrirtækið Circalo. Það hefur einnig fengið styrk frá evrópska krikketsambandinu sem segist vilja sjá liðið keppa á alþjóðavettvangi.

Sigfús Sigurðsson, fyrrum landsliðsmaður í handbolta og fisksali, mætti með fjölskyldu sinni til að fylgjast með æfingarleiknum.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Sú ósk verður að veruleika í júlí þegar íslenska landsliðið ferðast til Póllands til að keppa á móti gegn Póllandi, Litáen, Lettlandi og Úkraínu.

Eitt þeirra fyrirtækja sem styrkja landsliðið er tungumálafyrirtækið Bara tala, sem sérhæfir sig í starfstengdu íslenskunámi fyrir fyrirtæki. Hátt í 160 fyrirtæki notast nú þegar við þjónustu Bara tala og prýðir nafn fyrirtækisins meðal annars treyju liðsins.

Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala, segir að þrátt fyrir að vera aðeins tveggja ára gamalt þá hafi umsvif fyrirtækisins aukist til muna. Margir leikmenn í liðinu nota Bara tala nú þegar í starfi og með samstarfinu eykst aðgengi allra leikmanna að aukinni íslenskukennslu.

„Í þessum hópi eru leikmenn frá löndum eins og Indlandi, Pakistan og Sri Lanka sem eru að keppa fyrir Íslandshönd og hafa þeir nú allir aðgang að kennsluefni Bara tala. Við ætlum líka að búa til orðaforða fyrir krikket á íslensku þar sem orðaforðinn er bara til á ensku.“

Bala Kamallakharan, þjálfara íslenska landsliðsins í krikket og Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Jakob segir að landsliðið muni svo byrja á því að bjóða upp á barnanámskeið í haust og munu nokkrir leikmenn, sem tala góða íslensku, hjálpa til við að þjálfa og kenna yngri kynslóðinni krikket.

„Við gerum okkur grein fyrir því að ef við ætlum að byggja upp eitthvað menningarlegt þá þarf yngri kynslóðin að hafa aðgang að íþróttinni. Það er líka mjög auðvelt að kenna yngri krökkum krikket því þau hafa enga fordóma um íþróttina. Við sýnum þeim bara boltann og kennum þeim að grípa hann og þau elska það.“