Íslenska óperan mun sýna óperuna Brothers eftir Daníel Bjarnason á þremur sýningum á Copenhagen Opera Festival í Tunnelfabrikken 11.-13. ágúst í samstarfi við hátíðina og Malmö óperuhljómsveitina.

Verkið fjallar um fórnarkostnað stríðs, bræðralag og ástir og er byggt á samnefndri kvikmynd eftir Susanne Bier.

Í tilkynningu segir að uppfærslan hafi hvarvetna hlotið frábærar viðtökur áheyrenda og einróma lof gagnrýnenda og unnið til ýmissa verðlauna.

„Óperan Brothers er stórbrotið meistaraverk sem er frábært að deila með nýjum áhorfendum enda hefur verkið alla burði til þess að verða meðal þeirra óperuverka sem reglulega verða sviðsett í framtíðinni og ég vona sannarlega að svo verði. Það er líka mjög mikilvægt að kynna verk íslenskra tónskálda erlendis og leggja þannig okkar af mörkum til þess að auka orðspor Íslands sem menningarþjóðar,“ segir Steinunn Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í óperunni eru hermennirnir Michael og Peter sendir á vígvöllinn. Michael fer frá Söru eiginkonu sinni og dóttur, Nadiu, og Peter frá eiginkonu sinni Önnu, sem er barnshafandi.

Þeir Michael og Peter eru taldir af þegar þyrla þeirra er skotin niður af óvinahernum og er minningarathöfn haldin þeim til heiðurs.

Spennu verður vart í fjölskyldu Michaels þegar kemur upp á yfirborðið að faðir Michaels hefur meira dálæti á honum en yngri bróðurnum, Jamie, og segir að Jamie hefði frekar átt að deyja en Michael.

Leikstjóri er Kasper Holten og hljómsveitarstjóri er Andrea Molina. Oddur Arnþór Jónsson fer með hlutverk Michael og James Laing og Steffen Jespersen leika Peter. Jamie er leikinn af Michael Bracegirdle.