Fágun, félag áhugafólks um gerjun, heldur út fyrir landsteinana næstu helgi til að taka þátt í norrænni heimabruggkeppni. Fulltrúar Íslands eru sigurvegarar í árlegri bruggkeppni Fágunar sem haldin var í maí síðastliðnum.

Keppnin verður haldin í Stavanger á laugardaginn kemur en Fágun hefur unnið að því með systrafélögum sínum í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi að koma þessari keppni af stað.

Það var Dagur Helgason sem vann verðlaun fyrir besta dökka bjórinn, en hann hefur auk þess sópað til sín verðlaunum hér heima í heimabruggskeppnum Fágunar undanfarin ár. Svo var bjór Arnars Arinbjarnar og Odds Sigurðssonar valinn besti ljósi bjór keppninnar.

„Við erum afskaplega stolt og ánægð að fá þetta tækifæri og erum ótrúlega spennt fyrir þessu ævintýri. Aðaltilgangur Fágunar er að þrýsta á stjórnvöld að lögleiða heimabrugg, enda erum við á því að það sé menningarstarfsemi,“ segir Finnbjörn Þorvaldsson, fulltrúi Fágunar.

Auk sigurvegaranna og Finnbjarnar mun Guðmundur Mar einnig fara með sem fulltrúi Íslands í dómnefndinni. Guðmundur er hokinn reynslu, bæði sem dómari í bruggkeppnum víða um heim en eins sem atvinnubruggari, 25 ár við gæðaeftirlit og í 16 ár sem bruggmeistari.

„Það er til mikils að vinna í keppninni úti, en sigurbjórinn verður bruggaður til almennrar dreifingar af Mikkeler, einu virtasta handverksbrugghúsi heims. Það væri sérlega gaman að sjá íslenskan sigurbjór seldan í næstu Vínbúð.“