Hin geysivinsæla kvikmynd Christopher Nolan, Oppenheimer, var loks sýnd í Japan fyrir helgi eftir átta mánaða töf og fékk hún mikið lof frá áhorfendum að sögn WSJ.

Það mátti alltaf búast við því að sýning myndarinnar yrði umdeild í eina landinu sem hefur lent í því að verða fyrir kjarnorkusprengjuárás.

Áhorfendur virtust hins vegar mjög ánægðir með myndina þar sem hún býður upp á annað sjónarhorn en það sem Bandaríkjamenn hafa haldið í áratugi, sem er að árásirnar á Hiroshima og Nagasaki voru nauðsynlegar til að flýta fyrir endalokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Kvikmyndagagnrýnandinn Takeo Matsuzaki sagði að Oppenheimer væri frábrugðin mörgum öðrum Hollywood-myndum og sýndi meðal annars hvernig J. Robert Oppenheimer var á móti notkun sprengjunnar eftir stríðið og hvernig ríkisstjórn hans snérist gegn honum á tímum kalda stríðsins.

„Myndin sýnir hvernig Oppenheimer var sjálfur í miklum vandræðum á þessum tíma. Með því að vinna Óskarsverðlaunin gæti það leitt til breytinga á því hvernig Hollywood-myndir framtíðarinnar takast á við þetta mál,“ segir Takeo.

Almenningsálit hvað varðar kjarnorkusprengjurnar eru vissulega ólík í Japan og í Bandaríkjunum. Margir Bandaríkjamenn telja að árásirnar hafi bjargað hundruðum þúsunda mannslífa með því að sannfæra Japan um að gefast upp og útrýma þörfinni fyrir innrás.

Í Japan er almennt viðhorf að það var ekki réttlætanlegt að nota vopnin, þrátt fyrir stríðsglæpi Japana. Á sama tíma kenna margir Japanir sinni eigin ríkisstjórn um stríðið frekar en að bera fjandskap í garð Bandaríkjamanna fyrir að varpa sprengjunum.