Listval opnar jólasýningu sína í Hörpu næstkomandi laugardag, en sýningin mun standa til 7. janúar. Listval sérhæfir sig í myndlistarráðgjöf fyrir heimili, fyrirtæki og stofnanir. Markmið Listvals hefur frá upphafi verið að auðvelda fólki að fjárfesta í myndlist og gera hana aðgengilegri. Þannig munu öll verkin einnig vera til sýnis á heimasíðu Listvals á sama tíma og jólasýningin opnar í galleríinu í Hörpu.
„Heimasíða Listvals er stór þáttur í því að auka aðgengi að myndlist en þar getur fólk setið heima, skoðað úrvalið og mátað verkin með sérstakri “skoða í eigin rými” virkni sem hefur slegið í gegn“ segir Helga Björg Kjerúlf, stofnandi og einn eigenda Listvals.
Þá mun Listval fagna eins árs veru í Hörpu á laugardaginn. Frá opnuninni í Hörpu hefur Listval sýnt og selt samtímamyndlist eftir tugi listamanna.
„Við finnum fyrir mikilli ánægju meðal almennings á starfseminni og aðsóknin endurspeglar það“ segir Elísabet Alma Svendsen, sem er einnig stofnandi og eigandi Listvals.
