Þegar heimsfaraldur skall á urðu miklar deilur á milli Ástralíu og Kína en ríkisstjórn Ástrala lagði til að sjálfstæð rannsókn færi fram á uppruna Covid. Kínverjar svöruðu þessu ákalli með því að leggja 218% innflutningstoll á ástralskt vín.
Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, tilkynnti fyrir helgi að þessari stefnu yrði breytt og frá og með 29. mars heyrðu þessir tollar sögunni til.
Kína var stærsti markaður í heimi fyrir ástralskt vín árið 2020 og samsvaraði rúmlega 40% af útflutningi landsins. Kínversk stjórnvöld settu hins vegar himinháa tolla á ástralskt vín, bygg, timbur, kol, bómull og aðrar vörur.
Stjórnvöld í Peking voru einnig mjög ósátt við ákvörðun Ástrala um að útiloka kínverska fyrirtækið Huawei frá því að taka þátt í uppsetningu 5G netkerfa í landinu.
Í lok árs 2021 hafði vínflutningur frá Ástralíu til Kína dregist saman um 97% og þurfti Wine Australia meðal annars að loka skrifstofu sinni í Shanghai.
Síðan þá hefur dregið úr spennu milli ríkisstjórnanna tveggja og hefur kínverska viðskiptaráðuneytið samþykkt að aflétta þessum tollum á ástralskt vín.