Í rúmlega klukkutíma keyrslu suður af Minneapolis St. Paul í Minnesota-ríki situr 270 manna bær sem ber heitið Nerstrand. Bærinn var stofnaður árið 1856 af Norðmanninum Osmund Osmundarsyni en nafn bæjarins kemur frá norska bænum Nedstrand norðan við Stavanger.

Í rúmlega klukkutíma keyrslu suður af Minneapolis St. Paul í Minnesota-ríki situr 270 manna bær sem ber heitið Nerstrand. Bærinn var stofnaður árið 1856 af Norðmanninum Osmund Osmundarsyni en nafn bæjarins kemur frá norska bænum Nedstrand norðan við Stavanger.

Íbúar Nerstrand eru um 270 talsins.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Þrátt fyrir að vera lítill er bærinn vel þekktur í Minnesota en hann hýsir eina elstu starfrækjandi kjötbúð Bandaríkjanna. Fyrir áramót var blaðamanni Viðskiptablaðsins boðið í heimsókn í þessa verslun til að kynnast hvernig hefðbundin kjötframleiðsla í suðurhluta Minnesota hefur farið fram í gegnum árin.

Nerstrand Meats var stofnað árið 1890 af Adam Roth og syni sínum William. Á þeim tíma var bæði lestarstöð og hótel í bænum sem þurfti á kjöti að halda. Adam tók þá til ráða að slátra belju og áður en langt um leið voru feðgarnir komnir með sterkan fyrirtækjarekstur.

Kjöt- og ostaúrval verslunarinnar.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)
Feðgarnir Adam Roth og William ásamt starfsmanninum Louis.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Upprunalegu 19. aldar uppskriftirnar sem Roth notaði fyrir skinku og pylsur verslunarinnar eru til að mynda enn notaðar í dag. Nerstrand Meats notast ekki aðeins við gamlar aðferðir fyrir kjötvinnslu heldur er hún enn þann dag í dag í eigu sömu fjölskyldunnar.

„Rúmlega helmingur af starfsemi okkar er heimsending og veitingaþjónusta. Við höfum líka aldrei sent jafn mikið af vörum okkar til matvöruverslana og hefur samstarfið okkar við þessar verslanir hjálpað við að auka þekkingu vörumerkisins okkar í suðurhluta Minnesota,“ segir Valerie Kuchinka, einn af eigendum verslunarinnar.

Starfsmenn Nerstrand Meat market notast enn við gömlu aðferðirnar.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Eigendur telja að velgengni búðarinnar stafi fyrst og fremst af varðveislu gamalla fjölskylduhefða og með því að leggja ríka áherslu á gæði. Þau segjast eingöngu nota hágæða nauta- og svínakjöt og er gamaldags múrsteinahús notað til að reykja kjötið.

„Við notum ekkert gas eða rafmagn til að reykja kjötið okkar. Þessi gamla aðferð sem við notum er að vísu dýrari en við treystum á að þeir viðskiptavinir sem hafa komið hingað í 130 ár sjá muninn og trúi því að ferlið okkar sé það sem gerir þessa verslun sérstaka.“