Í dag göngum við Íslendingar til kosninga og spennan er áþreifanleg. Tölurnar fara vonandi að streyma inn þegar líður á kvöldið, og augun festast á skjánum langt fram eftir nóttu. Hvort sem þú fylgist með kosningasjónvarpi alla nóttina, fagnar sigri með vinum eða ert miður þín yfir vilja þjóðarinnar, þá er Espresso Martini kokteillinn sem heldur þér gangandi.

Kate Moss kveikjan að kokteilnum

Sagan segir að hinn þekkti barþjónn Dick Bradsell hafi skapað drykkinn seint á níunda áratugnum eftir að ofurfyrirsætan Kate Moss bað hann um að útbúa drykk sem myndi vekja hana svo hún gæti haldið fjörinu gangandi. Útkoman var þessi fullkomni kokteill – jafnvægi milli kraftsins úr espresso-kaffi og áhrifanna frá áfenginu, með glæsilegu yfirbragði sem hefur gert hann að klassík í heimi drykkja.

Uppskrift að fullkomnum espresso martini

Þú þarft:

  • 1 skot af espresso (helst nýlagað og sterkt)
  • 30 ml kaffilíkjör (t.d. Kahlúa eða Tia Maria)
  • 30 ml vodka
  • Klakar
  • (Valfrjálst) 10 ml síróp ef þú vilt aðeins sætari drykk
  • Þrjár kaffibaunir til skrauts

Aðferð:

Byrjaðu á því að útbúa espresso. Láttu það kólna aðeins, en ekki of mikið – það þarf að vera ferskt til að skila rétta bragðinu.

Fylltu kokteilhristara með klökum.

Helltu espresso-kaffi, kaffilíkjör, vodka og sírópi (ef þú vilt) í hristarann.

Hristu með alvöru krafti í 20–30 sekúndur, þar til hristarinn er kaldur og froða myndast.

Sigtaðu blönduna í kælt martini-glas til að ná silkimjúkri áferð.

Skreyttu með þremur kaffibaunum – sem tákna heppni, hamingju og heilbrigði.

Þegar kosninganóttin er í fullum gangi og spennan nær hápunkti, er espresso martini hinn fullkomni fylgdarsveinn. Skál fyrir lýðræðinu!