Á dögunum hófust sýningar á kvikmyndinni Killers of the Flower Moon í leikstjórn Martin Scorsese. Leikstjórinn er þekktur fyrir nokkuð langar kvikmyndir, til að mynda var The Irishman sem kom út árið 2019 rúmlega þrír og hálfur klukkutími, en fleiri virðast hafa fylgt í hans fótspor.
Greinahöfundur The Economist gerði málið að umfjöllunarefni og greindi meira en hundrað þúsund leiknar kvikmyndir sem komið hafa út á alþjóðavísu frá árinu 1930. Kom þá í ljós að meðallengd kvikmynda hafi verið í kringum 81 mínútu á fjórða áratug síðustu aldar en farið upp í 107 mínútur árið 2022, sem er aukning um 24%. Séu vinsælar stórmyndir (e. Blockbusters) teknar út fyrir sviga er aukningin enn meiri, eða nærri 50%.
Auk Killers of the Flower Moon bendir höfundurinn nýjustu myndirnar í kvikmyndaseríum á borð við Indiana Jones (154 mínútur), John Wick (169 mínútur) og Mission Impossible (163 mínútur), auk Oppenheimer (180 mínútur).
Kvikmyndagerðamenn hafi þó byrjað að framleiða lengri myndir snemma á sjöunda áratugnum með myndum á borð við Lawrence of Arabia og Cleopatra, sem eru 216 og 248 mínútur að lengd. Næstu áratugi voru sveiflur á lengd kvikmynda en frá og með árinu 2018 voru lengri myndir reglan frekar en undantekning.
Vinsælustu myndirnar lengjast
Fyrir forvitnissakir ákvað Viðskiptablaðið að bera saman 20 tekjuhæstu kvikmyndir hvers árs frá aldamótum í Bandaríkjunum.
Á fyrsta áratug 21. aldarinnar var meðallengd kvikmynda í kringum 117 mínútur og hvert ár voru á bilinu 7 til 9 myndir lengri en tveir tímar. Á öðrum áratugi virtust kvikmyndirnar lengjast en meðallengd var þá í kringum 121 mínútu. Af 20 myndum voru á bilinu 9 til 13 lengri en tveir tímar.
Árið 2020 varð enn önnur breyting en heimsfaraldurinn skall á þá með krafti og eðli málsins samkvæmt fóru umtalsvert færri í kvikmyndahús. Meðallengd kvikmynda það ár var 106 mínútur en strax ári síðar varð svipuð þróun og á fyrri árum. Árið 2021 var meðallengd kvikmynda 124 mínútur og 10 voru lengri en tveir tímar, og 130 mínútur 2022, þar sem 12 voru lengri en tveir tímar.
Það sem af er ári 2023 er meðallengd tekjuhæstu kvikmyndanna 135 mínútur og hefur aldrei verið lengri frá aldamótum. Fimmtán voru lengri en tveir tímar, sex voru lengri en tveir og hálfur tími, og ein var þrír klukkutímar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.