Umræðan um lengd kvikmynda hefur dúkkað upp reglulega á undanförnum árum en nú síðast var fjallað um málið í The Economist og því slegið upp að vinsælar kvikmyndir væru nærri 50% lengri í dag en þær voru á fjórða áratug síðustu aldar.
Árið 2019 skrifaði blaðamaður NPR grein um málið þar sem kveikjan var Avengers: Endgame, sem er rúmir þrír klukkutímar að lengd. Varpaði hann fram spurningum um hvers vegna og hvernig þessi þróun hafi átt sér stað en peningar virtust helsta svarið.
The Guardian ræddi síðan við Sarah Atkinson, prófessor í skjámiðla fræðum við King's College í Lundúnum í byrjun árs 2022. Að sögn Atkinson er markaðssetning stór hluti af kvikmyndaheiminum en umræðan um lengri myndir ýti undir það að fólk geri sér ferð til að horfa á myndir í kvikmyndahúsum.
Þá vísaði hún til greiningar gagnafræðingsins Przemysław Jarząbek en þar kemur fram að kvikmyndir hafi lengst milli fjórða og fimmta áratugs síðustu aldar og síðan aftur eftir sjötta áratuginn en síðan þá hafi munurinn milli ára verið lítill.
Þegar The Batman, sem er tæpir þrír tímar, kom út árið 2022 skrifaði blaðamaður Variety aðra grein um málið og ræddi til að mynda við Dana Polan, prófessor í kvikmyndafræði við Háskólann í New York.
Að sögn Polan var lengi vel gert ráð fyrir að lengri kvikmyndir þýddu meiri gæði og kvikmyndahúsin gætu nýtt sér það við kynningar. Leikstjórinn Jon Turteltaub kom þó með ágætt innlegg inn í umræðuna:
„Engin kvikmynd er góð vegna þess að hún er löng og engin mynd er góð vegna þess að hún er stutt. En ég myndi frekar sjá stutta, lélega mynd heldur en langa.“
En þýða lengri kvikmyndir almennt meiri gæði? Svarið er já ef marka má greiningu Rotten Tomatoes. Kvikmyndir sem eru styttri en 100 mínútur eru líklegri til að fá lægri einkunn, kvikmyndir sem eru 100-120 mínútur eru líklegri til að vera vinsælar, kvikmyndir sem eru 120-140 mínútur eru líklegri til að vera tilnefndar og vinna Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmyndina, og kvikmyndir sem eru meira en 140 mínútur eru líklegri til að fá háa einkunn.
Á tímum samfélagsmiðla þar sem styttra efni er líklegra til vinsælda mætti ætla að langar kvikmyndir væru ekki málið. En á meðan myndirnar halda áfram að þéna milljarða á heimsvísu og skora hátt hjá neytendum er ólíklegt að mikil breyting verði þar á. Kvikmyndagestir þurfa því líklega að læra að halda í sér - í hið minnsta þar til kvikmyndahúsin innleiða hlé aftur.