Elín Hall hefur skipað sér sess sem einn af fjölhæfustu listamönnum landsins. Hún er þekkt bæði sem leikkona og tónlistarkona og hefur tekið þátt í metnaðarfullum verkefnum á sviði og í kvikmyndum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún þegar leikið í stórmyndum eins og Ljósbroti, sem var heimsfrumsýnd á hinni virtu kvikmyndahátíð í Cannes, og í kvikmyndinni Lof mér að falla. Á sama tíma hefur hún gefið út tónlist og haldið fjölda tónleika.
Eftir erfiða törn á árinu, þar sem Elín var í leikhúsi, lék í bíómyndum og gaf út plötu, þurfti hún að staldra við og endurskoða hlutina. Hún lenti á vegg og upplifði ýmis alvarleg einkenni kulnunar. „Það endaði eiginlega þannig að ég þurfti bara að fara að hitta einhverja norn,“ segir hún og hlær. „Það er auðvitað algengt í mínum hringjum að fólk sé að hitta miðla og þerapista, en það breytti öllu fyrir mig að fara til þessarar konu. Ég hafði enga trú á þessu fyrirfram – hún er auðvitað ekki norn, heldur einhvers konar heilari. Þetta var kviðnudd, og mér fannst það æði.“
Elín lýsir því hvernig þessi reynsla hafði djúpstæð áhrif. „Ég hef aldrei upplifað svona mikla losun. Eftir á sat ég bara í bílnum mínum eins og ég hefði verið að endurfæðast. Ég hef mildan húmor fyrir þessu og veit ekki alveg hvernig þetta kemur út á prenti, en í fullri alvöru endurstillti þetta mig og losaði um einhverja þoku í hausnum á mér.“