Ef þú fengir tækifæri til að hitta látinn föður þinn og spyrja einnar spurningar – hver væri hún? Að þessu spyr Birnir Jón Sigurðsson leikskáld í verkinu Sýslumaður dauðans sem nú er sýnt í Borgarleikhúsinu.

Í tilfelli Ævars, aðalpersónu verksins, vill hann vita af hverju pabbi hans hætti ekki að reykja til þess að sleppa við að fá krabbamein. Ef hann hefði hætt þá væri hann enn á lífi og gæti passað Tristan litla (son Ævars) meðan hann hittir vini sína á auglýsingastofunni á barnum. Þegar pabbi hans segir engar sannanir fyrir því að krabbinn og reykingarnar tengist með beinum hætti segir Ævar honum að það standi á pökkunum „reykingar drepa!“.


Sjálfhverfa kynslóðin

Að þessu leyti er Ævar fullkominn málsvari hinnar sjálfhverfu Z kynslóðar – hann á erfitt með að sýna samkennd og barmar sér yfir því hversu erfitt það var fyrir sig þegar pabbi hans greindist með krabbamein. Lyfin hafi gert pabba hans reiðan og leiðinlegan við sig.

Þegar ein af furðuverum verksins, kvenkyns móttökuritari, gerir ekki það sem Ævar biður um dregur hann upp hníf og stingur hana til dauða. Atriði sem virkaði óþægilega á áhorfendur, enda væntanlega bein tilvísun í þá ofbeldisöldu og fréttir um hnífaburð hjá ungu kynslóðinni sem hefur verið í umræðunni síðustu vikur eftir að ung stúlka var stungin til bana í miðbænum.

Hið stóra dramatíska uppgjör snýst í raun um að Ævar er fúll út í pabba sinn fyrir að hafa dáið og vill bara fá hann aftur – mínus sígaretturnar. Pabbinn tilheyrir hins vegar öðrum tíma og hann segist ekki geta ímyndað sér heim þar sem þú lifir í ótta við alla skapaða hluti – þú getir dáið í umferðinni, gangandi, með því að reykja, drekka. Dauðinn getir jafnvel hitt þig á skíðum en það eigi ekki að stoppa þig í að fara út úr húsi og lifa lífinu. Hann tekur dauðanum sem hluta af lífinu og vill að sonur sinn sé ekki fastur í sorginni heldur lifi lífinu.

Tvívíðar persónur

Góð leikrit standa og falla með persónusköpuninni. Í Sýslumanni dauðans birtist fjöldi áhugaverðra aukapersóna en því miður fær aðalpersónan – Ævar tónlistarmaður – falleinkunn. Maður öfundar ekki Harald Ara Stefánsson um að þurfa túlka fjölmörg mismunandi blæbrigði þess að vera hissa og undrandi í gegnum súrrealískt ferðalag Ævars um handanheima. Haraldur gerir sitt besta en verkefnið er nær ómögulegt þar sem aðalpersónan breytist fljótt í aðskotahlut í eigin leikriti.

Bestur á sviðinu er Pálmi Gestsson sem glæðir föður Ævars lífi og skapar eftirminnilegustu augnablik sýningarinnar – sem reykjandi moldvarpa fyrir hlé og svo í endurfundum sínum við Ævar eftir hlé þar sem við fáum loksins að vita eitthvað meira um samband þeirra feðga.

Það er einmitt eftir hlé sem bestu augnablik verksins verða til en jafnframt sem helstu gallar þess koma í ljós. Leikstjórinn Stefán Jónsson gerir sitt besta til að búa til ögrandi, stílfærða og kraftmikla umgjörð um ferðalag Ævars en það er ekki auðvelt þegar aðalpersónan er jafn tvívíð og Ævar tónlistarmaður. Þess vegna lifnar leikritið við eftir hlé þegar pabbi Ævars kemur aftur til sögunnar; þar fara persónur að tala saman, takast á í stað þess að horfa með undrunarsvip á furðuverur og vídjóverk á skjá. Hins vegar hefði gjarnan mátt sleppa furðulegu lokaatriði sem var ekki í takt við annað í verkinu og virtist skeytt aftan við verkið til að búa til „gleðilegan endi“.--