Guðrún Sóley Gunnarssdóttir fjármálahagfræðingur starfar sem aðstoðarframkvæmdarstjóri á skrifstofu bankastjóra Seðlabankans þar sem hún stýrir deild skrifstofustjórnar og samskipta. Hún er einnig fyrrverandi knattspyrnukona, uppalin í KR og á að baki 65 landsleiki með A – landsliðinu.

Örlög leikmanna eru ekki alltaf í þeirra höndum en knattspyrnuferill Guðrúnar Sóleyjar endaði vegna höfuðmeiðsla sem hún varð fyrir í leik með landsliðinu á Evrópumeistaramótinu í Finnlandi 2009.

„Ég sá ekki endilega fyrir mér þá að þetta yrðu endalokin á ferlinum en ég var lengi að jafna mig á meiðslunum. Þetta var samt bara eitthvað sem gerðist og aðlögunarferlið var nokkuð langt að því að átta mig á að ég myndi ekki spila fótbolta á hæsta stigi aftur,“ segir Guðrún Sóley um meiðslin.

Hún gekk í gegnum ýmislegt á sínum ferli með tilheyrandi gleði en einnig sárum töpum og meiðslum sem tók tíma að vinna sig í gegnum. Hún segist þó fyrst og fremst vera þakklát fyrir fótboltaferilinn sinn og lítur til baka með gleði í hjarta þó hann hafi ekki endað eins og hún hafði séð fyrir sér.

Guðrún Sóley lék 65 A - landsleiki á sínum ferli.
Guðrún Sóley lék 65 A - landsleiki á sínum ferli.

Hún segir lífið hafa breyst mikið eftir að ferlinum lauk.

„Fótboltinn tók mikinn tíma svo ég fékk aukið frelsi til að gera aðra hluti. Starf mitt í Seðlabankanum er tímafrekt en auk þess sinni ég fjölskyldunni og áhugamálum, það nýjasta er golf. Ég hef enn mjög gaman af fótbolta, nýt þess að horfa á fótboltaleiki, horfi á börnin mín spila og spila sjálf bolta einu sinni í viku með gömlum kempum,“ segir Guðrún um lífið eftir ferilinn.

Viðtalið við Guðrúnu má lesa í heild sinni í blaðinu Eftir vinnu sem kom út fyrir helgi. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.