Rakel Tómasdóttir, myndlistarkona og grafískur hönnuður, hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín síðustu ár en konur og kvenlíkaminn hafa verið í aðalhlutverki í listsköpun hennar. Hún hefur auk þess gefið út dagbækur sem hafa notið mikilla vinsælda, skissubók og listaverkabók með eigin verkum.
Hvenær byrjaðirðu að teikna/mála og hvernig kom það til?
Ég hef verið að teikna síðan ég man eftir mér, þegar ég var krakki var ég mikið í fimleikum, þá voru kannski einn til tveir dagar í viku þar sem ég var ekki á æfingu og þá var heilagur teiknitími.
Ég gat sko ekki leikið af því ég var að teikna. Jafnvel þó að það hafi verið mikið að gera í ýmsum verkefnum í gegnum tíðina hef ég alltaf náð að setja listsköpun á dagskrá.
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur hjá þér?
Mér finnst gott að byrja daginn í sundi, svo fer ég í dag- vinnuna mína. Í dag er ég að vinna á auglýsingastofunni Cirkus. Þar er ég helst í mörkunarvinnu og eyði flestum dögum í að hanna logo, myndskreytingar og velja liti eða letur fyrir hin ýmsu fyrirtæki.
Eftir vinnu skipti ég yfir í mín eigin verkefni sem eru að hanna letur eða teikna og gleymi mér oft í því fram á nótt. Ekki alltaf samt, ég á frábæra vini og fjölskyldu sem ég elska að eyða tíma með.
Hvaðan ertu helst að fá innblástur þessa dagana?
Ég reyni að hugsa frekar lítið um það hvaðan innblásturinn kemur og leyfi hlutunum bara að flæða. Ég teikna bara það sem mig langar að teikna þá stundina og svo sér maður hvaðan innblásturinn kom eftir á. En samskipti fólks, tilfinningar og líkamstjáning hafa alltaf verið gegnumgangandi þema undanfarin ár.
Hvað hvetur þig áfram í listinni?
Áður voru það viðbrögð annarra og auðvitað er alltaf gaman að fá hrós og heyra að fólk tengi við verkin manns. Þessa dagana er ég hins vegar að vinna mig til baka í grunninn og teikna til þess að aftengja mig frá raunveruleikanum og láta sjálfri mér líða vel. Svo kemur bara í ljós hvort aðrir fái að sjá þau verk eða ekki.
Hverju ertu að vinna að núna/hvað er næst?
Ég hélt sýningu í nóvember sem hét möguleikar, ég er enn þá að vinna í þeirri seríu og ætla að taka hana enn lengra.
Viðtalið birtist í Eftir vinnu. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.