Þrátt fyrir vera einungis 28 ára gömul hefur Anna Maggý verið starfandi sem ljósmyndari í ellefu ár.
Hún segist þekkja fátt annað en listamannslífið en að hún hafi þó ákveðið að fara á sjó aðeins sautján ára gömul.
Nú lítur hún á starfið sitt svipað og sjómennsku að því leyti að hún tekur langar tarnir sem fara eingöngu í vinnu og hvílir sig svo inn á milli.
„Sjómennska er virkilega erfitt starf og algjör harka, við vorum að veiða grásleppu og ég gerði þetta í þrjá mánuði. Ég prófaði líka einu sinni að vinna í ljósmyndaverslun og mér fannst það galin pæling að vinna alltaf á sama tíma á hverjum degi.
Ég þekki ekkert annað en að vinna í törnum og hitt var bara alls ekki að ganga fyrir mig. Ég fékk heldur aldrei útborgað af því ég skrifaði á mig ljósmyndavörur fyrir öll launin mín, mig minnir að ég hafi endað í mínus þegar ég hætti.“
„En ég er stolt af því að geta lifað af listinni eingöngu og hafa getað gert það frá því ég var tvítug, við það sem ég elska.
Ef ég hugsa til baka þegar ég var að byrja þá væri ég mjög ánægð með staðinn sem ég er á í dag, ég er að gera verkefni sem mig dreymdi um að gera.“
Viðtalið við Önnu Maggý er að finna í blaðinu Eftir vinnu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.