Mathöllin Vera í Grósku hugmyndhúsi í Vatnsmýrinni, opnar í dag. Forsvarsmenn verkefnisins og eigendur eru Björn Bragi Arnarsson og Hafsteinn Júlíusson en þeir unnu áður saman að Borg29 mathöllinni í Borgartúni. .

Í Veru eru átta veitingastaðir, þar á meðal Pünk Fried Chicken sem hefur starfað í Gróðurhúsinu í Hveragerði, pizzastaðurinn Natalía úr Borg29 og vínbarinn og kaffihúsið Mikki Refur af Hverfisgötu. Hinir fimm staðirnir eru nýir en þar er um að ræða mexíkóska staðinn Caliente, Bang Bang sem sérhæfir sig í asískum mat, súpustaðinn Næru, morgunverðarstaðinn Stund og loks Furu sem er nýr staður í eigu verðlaunakokksins Denis Grbic.

„Það er hrikalega gaman að opna loksins dyrnar og bjóða fólk velkomið í mat og drykk. Við erum búin að vinna lengi í þessu verkefni og erum bæði ánægð og stolt af útkomunni,“ segir Björn Bragi Arnarsson, framkvæmdastjóri og stærsti eigandi Veru.

Sjá einnig: Björn Bragi í viðræðum um nýja mathöll í Turninum

Hönnun mathallarinnar var í höndum Hafsteins Júlíussonar og hönnunarstofu hans, HAF Studio. „Hafsteinn og hans fólk eiga mikið hrós skilið. Þeim hefur tekist að skapa ótrúlega fallega heildarmynd, þannig að fólk upplifi að það sé að koma inn á einn stóran veitingastað, en á sama tíma ná þessir átta ólíku staðir að njóta sín hver fyrir sig,“ segir Björn.