Í tímaritinu Áramótum, sem kom út 30. desember, er umfjöllun um 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan er hluti umfjöllunarinnar.

Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson er langlaunahæsti íslenski landsliðsmaðurinn eftir að hann samdi við Al-Orobah í Sádi-Arabíu í sumar. Jóhann Berg fær um milljarð króna í árslaun hjá félaginu samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en peningarnir eru skattfrjálsir í Sádi-Arabíu.

Albert Guðmundsson flutti sig um set í ítölsku A-deildinni þegar hann fór frá Genóa til Fiorentina á láni.

Fiorentina er með kaupmöguleika í þeim lánssamningi. Fiorentina greiðir Genóa 8 milljónir evra fyrir að hafa Albert í eitt tímabil og þarf svo að greiða 20 milljónir evra til viðbótar til að fá hann alfarið yfir.

Framherjinn er með um 350 milljónir króna í árslaun.

Aron Einar einungis gjaldgengur í Meistaradeild Asíu

Aron Einar Gunnarsson er einn launahæsti íslenski atvinnumaðurinn en hann leikur með Al Gharafa í Katar. Hann er með um 300 milljónir króna í árslaun hjá katarska félaginu. Aron Einar er einungis gjaldgengur í Meistaradeild Asíu en getur farið að spila í katörsku deildinni um áramótin.

Andri Lucas Guðjohnsen yfirgaf Lyngby í Danmörku og hélt til Gent í Belgíu. Gent keypti íslenska landsliðsframherjann fyrir þrjár milljónir evra en það samsvarar rúmlega 450 milljónum íslenskra króna. Hann er dýrasti leikmaður í sögu Lyngby.

Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson skrifaði í sumar undir samning við FC Kaupmannahöfn sem gildir til ársins 2027. Rúnar Alex var á mála hjá enska stórliðinu Arsenal en kom við sögu í einungis sex leikjum á fyrsta tímabilinu hjá Lundúnaliðinu. Í þeim hélt hann þrisvar sinnum hreinu.

Hann kom til Arsenal frá Dijon í september 2020. Hann er 28 ára og hefur verið á láni síðustu tímabil frá Arsenal. Fyrst fór hann til OH Leuven í Belgíu, næst til Alanayspor í Tyrklandi og svo síðast til Cardiff.

Alfreð leggur skóna á hilluna

Alfreð Finnbogason hefur lagt skóna á hilluna. Hann lék á þessu ári með Eupen í Belgíu. Alfreð hóf störf 1. ágúst sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar Breiðabliks og hefur sinnt þeim störfum meðfram knattspyrnuiðkun sinni í Belgíu í haust.

Alfreð sem er 35 ára var lykilmaður í Breiðabliki sem vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki karla árið 2010.

Alfreð Finnbogason hefur lagt skóna á hilluna, en hann lék á þessu ári með Eupen í Belgíu.
© epa (epa)

Alfreð lék fyrst með Lokeren í Belgíu og síðar Helsingborg í Svíþjóð. Þaðan lá leiðin til Heerenveen í Hollandi þar sem hann sló heldur betur í gegn leiktíðina 2013-2014. Hann skoraði þá 24 mörk með liðinu og varð þriðji markahæsti leikmaður efstu deildar í Hollandi.

Þessi frábæra frammistaða kveikti áhuga stærri liða og Real Sociedad á Spáni keypti Alfreð frá Heerenveen. Hann var svo lánaður til Olympiacos á Grikklandi en árið 2016 samdi Alfreð við þýska félagið Augsburg og lék þar til ársins 2022.

Síðustu tvö ár var hann svo á mála hjá Lyngby í Danmörku og Eupen í Belgíu en Alfreð glímdi þó nokkuð við meiðsli síðustu ár ferilsins. Alls spilaði Alfreð 73 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 18 mörk.

Í tímaritinu Áramótum er listi yfir 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan má sjá tuttugu launahæstu:

  1. Jóhann Berg Guðmundsson Al-Orobah um 950 m. kr.
  2. Orri Steinn Óskarsson Real Sociedad um 440 m. kr.
  3. Hákon Arnar Haraldsson Lille um 350 m. kr.
  4. Albert Guðmundsson Genoa (Fiorentina lán) 350 m. kr.
  5. Hákon Rafn Valdimarsson Brentford um 300 m. kr.
  6. Aron Einar Gunnarsson Al Gharafa um 300 m. kr.
  7. Arnór Sigurðsson Blackburn um 200 m. kr.
  8. Kristian Hlynsson Ajax um 200 m. kr.
  9. Guðlaugur Victor Pálsson Plymouth um 200 m. kr.
  10. Alfreð Finnbogason KAS Eupen um 190 m. kr.
  11. Rúnar Alex Rúnarsson FC Kaupmannahöfn um 190 m. kr.
  12. Ísak Bergmann Jóhannesson F. Dusseldorf um 170 m. kr.
  13. Andri Lucas Gudjohnsen Gent um 170 m. kr.
  14. Elías Rafn Ólafsson FC Midtjylland um 160 m. kr.
  15. Mikael Egill Ellertsson Venezia um 150 m. kr.
  16. Bjarki Steinn Bjarkason Venezia um 150 m. kr.
  17. Andri Fannar Baldursson Bolognia (Elfsborg á láni) um 140 m. kr.
  18. Valgeir Lunddal Friðriksson F. Dusseldorf um 130 m. kr.
  19. Þórir Helgason Lecce um 120 m. kr.
  20. Hörður Magnússon Panathinaikos um 120 m. kr.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.