61 árs gömul kona frá Bandaríkjunum þarf á lifraígræðslu að halda vegna, að því er læknar hennar héldu, of mikillar neyslu áfengis. Konan þvertók hins vegar alltaf fyrir að hafa hafa farið full geyst í áfengisdrykkju og sór þess eið að hún neytti ekki áfengis. Síðar átti eftir að koma í ljós að konan var að glíma við hvimleiðan kvilla, sem fól það í sér að þvagblaðra hennar gerjaði vökva og framleiddi þannig alkóhól, og var blaðra konunnar því í raun lítið brugghús. The Washington Post greinir frá þessu, en fyrir áhugasama sem vilja kynna sér sjúkdóminn nánar ber hann heitið „urinary auto-brewery syndrome.“

Læknarnir höfðu m.a. skikað konuna til að fara í áfengismeðferð - svo sannfærðir voru þeir um að hún segði ósatt um drykkjuvenjur sínar og að lifraskemmdirnar mætti rekja til óhóflegrar áfengisneyslu. Konan var sömuleiðis send í rannsóknir á vegum Háskólans í Pittsburgh og voru rannsakendur einnig í fyrstu sannfærðir um að konan væri drykkjusjúklingur í afneytun.

En á síðari stigum rannsóknarinnar átti eftir að koma í ljós að konan var svo sannarlega ekki að ljúga til um drykkjuvenjur sínar. Var hún þá greind með fyrrnefndan sjúkdóm.

Umsókn konunnar um nýja lifur hafði upphaflega verið hafnað vegna ofangreindra ástæðna, en eftir að sjúkdómurinn var greindur fékk hún leyfi til að sækja um nýja lifur á nýjan leik. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvort henni verði að ósk sinni og fái grædda í sig nýja lifur.