Japanski bílaframleiðandinn Toyota er stærsta fyrirtæki Japans og stærsti bílaframleiðandi í heimi. Fyrirtækið er með álíka marga í vinnu og allir þeir sem búsettir eru á Íslandi, eða um 375 þúsund starfsmenn.

Toyota stofnaði lúxusbílamerkið Lexus árið 1989, eða fyrir 35 árum. Lexus var ekki í boði í Japan fyrr en árið 2005 en sambærilegir bílar voru seldir undir merkjum Toyota í heimalandinu.

Núverandi kynslóð Century fólksbílsins kom á markað 2018.
Núverandi kynslóð Century fólksbílsins kom á markað 2018.

Century eða Öldin

En samstæðan býður upp á enn meiri lúxus en Lexus. Sá bíll er seldur undir merkjum Toyota. Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1967. Hann nefnist Toyota Century og smíði hans var til heiðurs Sakichi Toyoda, stofnanda Toyota, þar sem öld var liðin frá fæðingu hans.

Þrjár kynslóðir Century fólksbílsins. Sú fyrsta er fremst á myndinni.
Þrjár kynslóðir Century fólksbílsins. Sú fyrsta er fremst á myndinni.

Aðeins þrjár kynslóðir hafa verið framleiddar á þessum 57 árum. Upphaflegi bíllinn var í framleiðslu í þrjátíu ár (G20/ G30/G40) og fékk aðeins minniháttar útlitsuppfærslur og nýjar vélar. Önnur kynslóðin kom á markað árið 1997 (G50) og sú þriðja 2018. Sú kallast G60.

Bíllinn er smíðaður fyrir þá sem eru með einkabílstjóra og er framleiddur í litlu upplagi eða um 40-50 bíla á mánuði. Verðið á bílnum er um 25 milljónir í Japan en væri 40-50 milljónir kominn til Íslands eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra væri búinn að leggja á sína ofurskatta.

Akihito var keisari á árunum 1989-2019. Hér er hann á annarri kynslóðinni af Century.
Akihito var keisari á árunum 1989-2019. Hér er hann á annarri kynslóðinni af Century.

Bíll keisarans

Century hefur verið opinber bifreið keisara Japans og forsætisráðherrans frá upphafi. Hann er smíðaður í sérstakri útgáfu fyrir keisarann, Century Royal. Bíllinn er lítt þekktur utan Japans þar sem hann er aðeins seldur þar. Það er þó ekki útilokað að rekast á hann í öðrum löndum því einstaka sendiráð Japana hafa fengið slíka bíla til umráða. Má þar nefna sendiráðið í París og Peking.

Toyota Century Royal af þriðju kynslóð er núverandi bifreið Japanskeisara.
Toyota Century Royal af þriðju kynslóð er núverandi bifreið Japanskeisara.

Jeppi fæddur

Í haust kynnti Toyota annan bíl undir nafninu Century SUV. Sá er fjórða sæta lúxusbíll í flokki þeirra dýrustu í gæðum en helmingi ódýrari en til dæmis Rolls Royce Cullinan. Að hætti Japana er bíllinn látlausari. Í stað stórrar tólf sílendra vélar hjá Rolls Royce er tvinnvél í bílnum sem skilar 406 hestöflum.

Naruhito keisari tók við árið 2019. Toyota framleiddi sérstakan bíl fyrir innsetningarathöfnina. Áður höfðu keisararnir notast við Rolls Royce.
Naruhito keisari tók við árið 2019. Toyota framleiddi sérstakan bíl fyrir innsetningarathöfnina. Áður höfðu keisararnir notast við Rolls Royce.

Framleiðslan verður 30 bílar á mánuði í Japan. Bílinn verður einnig í boði utan heimalandsins og sambærilegur bíll verður í boði undir merkjum Lexus. Í það minnsta í Norður-Ameríku. Orðrómur hefur verið á kreiki um að Century bílarnir verði að sérstöku vörumerki innan Toyota. Hvað sem gerist er ósennilegt að þeir verði kallaðir nokkuð annað en Toyota í Japan.

Fjallað er um málið í sérblaðinu EV Bílar, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.