Haraldur Eiríksson, leigutaki Laxár í Kjós, segir áin sé síbreytileg en í vetur og hafi hún þó breytt sér meira en oft áður.
„Síðan ég byrjaði að veiða í Laxá í Kjós, fyrir meira en aldarfjórðungi, hefur hún ekki breytt sér meira en nú í ár. Hún hefur nánast breytt sér allsstaðar. Málið er að síðasta vetur var þetta um tíma snjóþyngsti staður landsins og þann 12. febrúar mældist snjódýptin fjórir metrar við Vindás. Bændur tala um að þetta hafi jafnvel verið snjóþyngsti vetur frá árinu 1989. Þetta olli því að vorleysingar urðu miklu meiri en ég hef séð.“
Tíndu rafmagnsgirðingar upp úr ánni
Þegar Haraldur er spurður hvaða veiðistaðir hafi breytt sér svarar hann: „Ég veit bara ekki hvar ég á að byrja. Reynivallareyrar og Möðruvallareyrar eru gjörbreyttar, sem og staðirnir við Vindás og neðri hluti Bugðu. Meira að segja veiðistaðir á frísvæði árinnar, sem hingað til hafa ekki breytt sér mjög mikið, eru gríðarlega mikið breyttir því bakkar gengu sumsstaðar inn um þrjá til fjóra metra. Vorverkin hjá okkur snérust um að gera akfært með ánni, því vegir sópuðust í burtu í þessum látum. Vegurinn niður með Bugðu fór til dæmis alveg. Þegar við vorum að skoða aðstæður þar og keyra slóðann, þá ókum við bara fram á girðingarstaura. Víða, bæði í Bugðu og Laxá í Kjós, þurftum við að tína rafmagnsgirðingar upp úr ánni.“
Viðtalið í heild má lesa í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.