Málverkið „Sunday Afternoon“ eftir breska listamanninn L.S. Lowry kom á dögunum fyrir sjónir almennings í fyrsta skiptið í 57 ár. Málverkið var boðið upp hjá Christie's í London í vikunni og seldist á 6,3 milljónir punda eða 1,1 milljarð króna. Fyrir uppboðið hafði verkið verið metið á 4 til 6 milljónir punda.

Lowry fæddist í Lancashire, skammt frá Manchester, árið 1887 og lést árið 1976. Hann skildi eftir sig um þúsund málverk, skissur og teikningar og var þemað gjarnan daglegt líf í iðnaðarborgum Englands og þá sérstaklega Manchester. Það á einmitt við um „Sunday Afternoon“, sem er nú næstdýrasta málverkið sem selst hefur eftir Lowry.

Going to the Match.
Going to the Match.

Dýrasta verkið er „Going to the Match“ sem seldist á 7,8 milljónir punda, eða um. 1.350 milljónir króna, fyrir tveimur árum. Það málverk sýnir fólk á leið á Burnden Park, sem er gamli heimavöllur Bolton Wanderers. Í bakgrunni eru reykspúandi verksmiðjur.

Málverkið „Sunday Afternoon“ var í eigu Showering fjölskyldunnar, sem í tugi ára rak brugghús í Bretlandi. Ein frægasta framleiðslan var Babycham, einskonar ávaxta freyðivín. Babycham var fyrsti áfengi drykkurinn, sem auglýstur var í bresku sjónvarpi en það var árið 1957.