Málverkið „Sunday Afternoon“ eftir breska listamanninn L.S. Lowry kom á dögunum fyrir sjónir almennings í fyrsta skiptið í 57 ár. Málverkið var boðið upp hjá Christie's í London í vikunni og seldist á 6,3 milljónir punda eða 1,1 milljarð króna. Fyrir uppboðið hafði verkið verið metið á 4 til 6 milljónir punda.
Lowry fæddist í Lancashire, skammt frá Manchester, árið 1887 og lést árið 1976. Hann skildi eftir sig um þúsund málverk, skissur og teikningar og var þemað gjarnan daglegt líf í iðnaðarborgum Englands og þá sérstaklega Manchester. Það á einmitt við um „Sunday Afternoon“, sem er nú næstdýrasta málverkið sem selst hefur eftir Lowry.
Dýrasta verkið er „Going to the Match“ sem seldist á 7,8 milljónir punda, eða um. 1.350 milljónir króna, fyrir tveimur árum. Það málverk sýnir fólk á leið á Burnden Park, sem er gamli heimavöllur Bolton Wanderers. Í bakgrunni eru reykspúandi verksmiðjur.
Málverkið „Sunday Afternoon“ var í eigu Showering fjölskyldunnar, sem í tugi ára rak brugghús í Bretlandi. Ein frægasta framleiðslan var Babycham, einskonar ávaxta freyðivín. Babycham var fyrsti áfengi drykkurinn, sem auglýstur var í bresku sjónvarpi en það var árið 1957.