Moss, veitingastaður Bláa Lónsins á Retreat hótelinu, mun bjóða velkominn Michelin-stjörnu kokkinn Ollie Dabbous í desember. Hann stofnaði og er yfirmatreiðslumeistari á hinum þekkta veitingastað Hide í London. Hide opnaði árið 2018 og fékk nokkrum mánuðum síðar Michelin-stjörnu.

Áður en Ollie opnaði Hide átti hann Michelin-stjörnu veitingastaðinn sem er nefndur eftir honum sjálfum, Dabbous. Þetta eru ekki einu staðirnir sem Ollie hefur starfað á sem skarta hinum eftirsóknarverðu stjörnum. Hann starfaði einnig sem matreiðslumeistari hjá Noma, the Fat Duck og Texture. Ollie hefur gefið út matreiðslubækur og var dómari í breska MasterChef.

„Við Ollie kynntumst árið 2001 þegar við unnum báðir hjá Le Manoir hjá Raymond Blanc í Bretlandi. Hann er frábær matreiðslumeistari með einstakan stíl og það er mikill heiður að fá að taka á móti honum hér hjá okkur,“ segir Agnar Sverrisson, yfirmatreiðslumeistari Moss.

Ollie mun elda sex rétta matseðil fyrir gesti Moss 2. og 3. desember ásamt Agnari. Á sama tíma mun hinn þekkti vínþjónn (e. sommelier) Clément Robert velja vínpörun með matseðlinum. Hann lærði á Michelin-stjörnu stað í Loire dalnum í Frakklandi og var valinn vínþjónn ársins í Bretlandi árið 2013. Síðustu ár hefur hann starfað sem yfirvínþjónn hjá Caprice Holdings Ltd sem reka þekkta veitingastaði sem eru mörgum Íslendingum kunnugir. Má þar nefna Scott´s, Sexy Fish og Balthazar.

Annar Michelin-stjörnu kokkurinn á Moss á árinu

Agnar Sverrisson tók við sem yfirmatreiðslumeistari á Moss árið 2020. Hann lærði hjá hinum fræga matreiðslumeistara Raymond Blanc á Le Manoir aux Quat'Saisons í Bretlandi. Hann stofnaði síðar veitingastaðinn Texture í London sem fékk Michelin-stjörnu árið 2010 og hélt henni í 10 ár þangað til Agnar lokaði staðnum og flutti aftur heim á ný.

Þetta er í annað sinn sem Michelin-stjörnu matreiðslumeistari eldar fyrir gesti Moss á þessu ári en í febrúar kom til landsins fyrrnefndur Raymond Blanc.

Frá Moss veitingastaðnum sem tilheyrir Retreat hóteli Bláa lónsins.
© Aðsend mynd (AÐSEND)